Forsíða
Aðalfundur 2018 Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Skrifað af: Vefstjóri   
Miðvikudagur, 04. apríl 2018 21:31

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2018

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar verður haldinn mánudaginn 23. apríl 2018 og hefst kl. 20:00.

Fundarstaður: Safnaðarheimilið Kirkjuhvoll við Kirkjulund

 

DAGSKRÁ:

1.         Venjuleg aðalfundarstörf:

1.1.           Kjör fundarstjóra

1.2.           Skýrsla stjórnar 2017

1.3.           Reikningar félagsins 2017

1.4.           Ákvörðun um félagsgjöld 2018

1.5.           Stjórnarkjör. Kjósa skal þrjá aðalmenn og þrjá til vara, auk skoðunarmanns reikninga og einn til vara.

2.         Önnur mál

3.         Kaffiveitingar í boði félagsins

 

4. Gestir fundarins Þráinn Hauksson frá Landslagi ehf. og Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar, fjalla um Vífilsstaðaland. Nú fer fram skipulagsvinna eftir samkeppni að rammaskipulagi á landi Vífilsstaða sem Garðabær keypti á síðasta ári. Einnig kynna þeir tillögu að hönnun Bæjargarðs í jaðri Garðahrauns.


Umræður og fyrirspurnir.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir.


Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Síðast uppfært: Miðvikudagur, 04. apríl 2018 21:46
 
Skógarskáli Smalaholti Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Skrifað af: Vefstjóri   
Mánudagur, 12. mars 2018 22:33

Skógarskáli í Smalaholti

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar hefur látið vinna tillögu að skógarskála fyrir félagið sem yrði staðsettur við aðkomuna að Smalaholti og var hún unnin af Sigurði Einarssyni hjá Batteríi arkitektum. Í skálanum er gert ráð fyrir aðstöðu með geymslurými fyrir verkfæri, salerni og á baklóð yrði afgirt svæði fyrir plöntugeymslu. Hugmynd að skógarskála þróaðist eftir að Garðabær eignaðist Vífilsstaðaland á árinu 2017, því ætla má að núverandi aðstaða félagsins þurfi að víkja fyrir nýrri íbúðabyggð. 

 

Formaður Skógræktarfélagsins kynnti hugmyndina að skógarskála í Smalaholti fyrir Gunnari Einarssyni bæjarstjóra þann 7. nóv. 2017. Þá var í gangi hugmyndasamkeppni arkitekta á vegum Garðabæjar að rammaskipulagi Vífilsstaðalands með framtíðarsýn í huga. Úrslit samkeppninnar var kynnt 21. desember þar sem í fyrsta sæti var tillaga arkitektastofunnar Batterísins, landslagsarkitektastofunnar Landslags og verkfræðistofunnar Eflu. Í framhaldi fer fram vinnsla deiliskipulags. Tillagan að aðstöðu félagsins við aðkomuna að Smalaholti með skógarskála var send til bæjaryfirvalda og skipulagsyfirvalda þann 20. febrúar síðastliðinn.

 

Við undirbúning arkitektasamkeppninnar gafst hagsmunaaðilum tækifæri til að senda dómnefnd tillögur. Einnig var haldinn íbúafundur á vegum Garðabæjar þar sem óskað var eftir tillögum að nýtingu Vífilsstaðalands. Skógræktarfélagið er einn hagsmunaaðila Vífilsstaðalands vegna skógræktar- og útivistarsvæðis í Smalaholti, auk Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) vegna golfvallarins í Vetrarmýri og Hestamannafélagsins Spretts vegna reiðleiða.

 

Það hefur komið fram á íbúafundi og í blaðagreinum að GKG hyggst krefjast stækkunar golfvallarins inn fyrir mörk skógræktarsvæðisins í Smalaholti á móti skerðingu á golfvellinum vestast í Vetrarmýri. Það á eftir að koma í ljós við frekari skipulagsvinnu af svæðinu hvort, og þá hversu mikil sú skerðing verður.

Mikilvægt er að svæðið við aðkomuna að Smalaholti við Elliðavatnsveg verði ekki skert en þar hefur félagið áhuga á að koma fyrir skógarskálanum og þar er andlitið að skógræktar- og útivistarsvæðinu í Smalaholti sem er hjarta félagsins enda fyrsta svæðið sem fengið var til skógræktar en Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað í framhaldinu 24. nóvember 1988 og er því þrítugt á þessu ári.


Svona gæti skáli Skógræktarfélagsins í Smalaholti litið út.


Skálinn yrði staðsettur við bílastæðið við Elliðavatnsveg.


Síðast uppfært: Mánudagur, 12. mars 2018 23:03
 
Grisjun Smalaholt Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Skrifað af: Vefstjóri   
Mánudagur, 26. febrúar 2018 21:21

Tímabær grisjun í Smalaholti

 

Skógræktarfélag Garðabæjar réðst í víðtæka grisjun á elstu reitunum í skóginum í Smalaholti síðastliðið haust. Verkið var í höndum Einars Jónssonar, Orra Freys Finnbogasonar og Arnars Bjarka Jónssonar en allir hafa þeir áralanga reynslu á þessu sviði, meðal annars hjá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands og úr garðyrkju. Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar og fyrrverandi umhverfisstjóri Garðabæjar, hafði yfirumsjón með verkinu.


Mikil grisjunarþörf er í skóginum sem er tæplega 30 ára, ekki síst í stafafurulundum en það er sú tegund sem hefur vaxið einna hraðast og best í holtinu. Verktakar sem unnið hafa fyrir félagið á sumrin hafa flestir grisjað lítillega aðallega meðfram útivistarstígum samhliða öðrum störfum en aldrei hefur verið ráðist í jafnvíðtæka grisjun og nú. Svæðin sem urðu fyrir valinu eru með þeim elstu á svæðinu og liggja frá spennivirki í norðanverðu holtinu, samsíða og undir háspennulínu í átt að Elliðavatnsvegi. Grisjunarsvæðið var ekki samfellt heldur voru teknir fyrir misstórir lundir innan þess eða þar sem mest þörf var talin á grisjun. Jafnframt var klippt frá útivistarstígum þar sem greinar voru farnar að slúta inn á þá.


Skógurinn verður aðgengilegri

Megintilgangur grisjunarinnar er tvíþættur. Í fyrsta lagi stuðlar grisjun að auknu heilbrigði trjáa og skógarins sem heildar. Í of þéttum lundum líða öll trén fyrir þrengslin og baráttan verður hörð um vatn og næringu úr jarðvegi, rótarrými og birtu. Með því að fjarlægja á skipulegan hátt lakari einstaklinga, bætir maður mjög lífsskilyrði hinna sem eftir standa. Í öðru lagi bætir grisjun til muna aðgengi um skóginn og ásýnd hans enda gamlir lundir oft orðnir svo þéttir að erfitt og jafnvel ómögulegt er að fara um þá. Það er til lítils að rækta útivistarskóg ef engin getur farið um hann nema mýs og fuglar.


Smalaholtið er útivistarskógur, þar ægir saman ólíkum trjátegundum í sama lundinum sem getur valdið grisjunarmönnum talsverðum heilabrotum enda liggur ekki alltaf ljóst fyrir hvaða tré á að standa og hvað á að falla. Í þessari grisjun var því megináhersla lögð á að grisja reiti þar sem ein tegund er ríkjandi, annars vegar furureiti og hins vegar lerkireiti. Sums staðar var nóg að kvista upp (fjarlægja neðstu greinar) stafafurur til að opna leið um skóginn en annars staðar þurfti annað hvert tré að fara. Jafnframt var lögð áhersla á að skilja eftir áhugaverða einstaklinga, t.d. skemmtilega vaxin kræklótt lerkitré sem eiga eftir að verða ,,karakterar“ þegar fram líða stundir. Í hefðbundinni nytjaskógrækt væru slík tré umsvifalaust felld en í útivistarskógi eru þau til yndis og lífga upp á skóginn.


Sjálfsáðum plöntum hjálpað

Jafnframt lögðu grisjunarmenn áherslu á að ganga vel frá eftir sig enda skógurinn fjölsóttur af útivistarfólki og leiðinlegt ef hann lítur út eins og þar hafi fallið sprengja. Bolum var raðað í snyrtilegar stæður og greinum í hrúgur sem síðan var gjarnan sagað ofan í til að flýta niðurbroti. Greinar og annað sem féll til við grisjunina var dregið frá mögulegum gönguleiðum og í sumum tilfellum var greinahrúgum komið fyrir í nálægum lúpínuflekkjum. Í norðanverðu holtinu var talsvert um sjálfsáðar stafafurur og ilmreynitré sem voru að koma upp úr lúpínuflekkjum. Samkeppni þessara litlu plantna við lúpínuna getur verið hörð og því var gripið til þess ráðs að dreifa greinum sem féllu til við grisjun í kringum sjálfsáðar plöntur á stöku stað. Með því eru tvær flugur slegnar í einu höggi, greinarnar halda lúpínunni niðri næst plöntunni þannig að hún fær forskot í samkeppninni. Um leið nýtur hún góðs af niturbindingu lúpínunnar auk þess sem niðurbrot greinanna kemur líka til með að bæta jarðvegslífið með tíð og tíma.


Þrátt fyrir að Smalaholt eigi að heita fullplantað býður svæðið enn upp á talsverða möguleika til nýgróðursetninga, bæði vegna þess að víða eru eyður í skóginum auk þess sem hægt er að fara að rækta viðkvæmari trjátegundir í skjóli skógarins sem þegar er vaxinn. Þá gefur grisjun gamalla reita líka tækifæri til að gróðursetja þar skuggþolnar skógarbotnsplöntur til að auka enn á fegurð og fjölbreytileika skógarins.


Þó að skógarhöggið í haust hafi verið víðtækt og gert mikið til þess að opna skóginn og auka heilbrigði trjágróðurs, er ljóst að frekari grisjunar er þörf í Smalaholti. Í raun væri skynsamlegt að grisja skóginn lítillega á hverju ári. Svæðið er gríðarstórt og margir lundir komnir á tíma. Sérlega brýnt er að ráðast í grisjun í lundum þar sem ólíkum trjátegundum ægir saman enda má með markvissum klippingum og grisjun lengja líf og jafnvel bjarga trjám sem annars yrðu undir í baráttunni. Um leið verður skógurinn okkar fallegri og við njótum hans betur.


Lerkireitur Rotary-klúbbsins að lokinni grisjun.

 

Sjálfsáinn reyniviður í lúpínuflekki. Til að hálpa honum í samkeppni við lúpínuna var gripið

til þess ráðs að raða greinum af furu í kringum hann. Furan sem féll til við grisjunina

heldur lúpínunni niðri og gefur reyniviðnum tækifæri til að vaxa og dafna.


Síðast uppfært: Mánudagur, 26. febrúar 2018 21:56
 
jólaundirbúningur Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Skrifað af: Vefstjóri   
Mánudagur, 18. desember 2017 09:37

Skógræktarfélag Garðabæjar kemur að undirbúningi jólanna

Árlegur jólaskógur var í Smalaholti laugardaginn 16. desember. Að þessu sinni var um að ræða samstarfsverkefni Skógræktarfélagsins og Rotarýklúbbsins í Görðum, en klúbbsfélagar hafa ræktað skóg á um eins hektara spildu í Smalaholti frá upphafi skógræktar í holtinu fyrir um þremur áratugum. Sjálfboðaliðar frá báðum félögunum störfuðu við jólaskóginn.


Jólaskógurinn í Smalaholti var vel sóttur þrátt fyrir votviðri. Það var ánægjulegt að sjá stórfjölskyldur koma saman til að velja sér jólatré í skóginum og gæða sér á kakó og piparkökum eftir að hafa valið sér tré sem mun prýða heimilin um jólin.

Skógræktarfélagið selur ekki aðeins jólatré í jólaskóginum. Hjálparsveit skáta í Garðabæ hefur fellt um hundrað furur af svæðum félagsins undanfarin ár gegn vægu gjaldi. Hjálparsveitin selur trén á jólatrjáasölu sinni. Þetta samstarf er beggja hagur til margra ára.


Í Brynjudal í Hvalfirði er Skógræktarfélagið með ræktunarreit jólatrjáa. Þar vaxa upp gríðarlega falleg tré svo sem blágreni sem eru tilbúin til sölu. Í ár hafa nokkur tré verið seld til jólatrjáasölu Skógræktarfélags Reykjavíkur að Elliðavatni og til Skógræktarfélags Íslands.


Við sem ræktum íslensk tré úti í náttúrunni án eiturúðunar, viljum vara kaupendur erlendra trjáa við því að með þeim geta slæðst laumufarþegar sem fjölga sér með slæmum afleiðingum fyrir uppvaxandi trjágróður í landinu bæði heima í görðum og í skógum.


Skógræktarfélag Garðabæjar hefur ræktar útvistarskóga í Garðabæ í tæp 30 ár. Svæðin eru vinsæl útvistarsvæði enda hafa stígar verið lagðir um þau fyrir almenning og sér félagið um að halda þeim við eftir fremsta megni. Í sumar og haust hefur verið ráðist í nauðsynlega grisjun í skóginum enda má hann ekki vaxa upp eins og þyrnigerðið í ævintýri Þyrnirósar. Verktakar hafa verið að störfum á vegum Skógræktarfélagsins nú í haust í Smalaholti og Sandahlíð sem útivistarfólk hefur eflaust orðið vart við í skóginum. Jólaskógurinn gegnir einnig hlutverki við grisjun skógarins en félagið gróðursetur mörghundruð tré í stað þeirra sem felld eru fyrir framtíðar jólaskóg.


Skógræktarfélag Garðabæjar óskar félagsmönnum og Garðbæingum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.


Erla Bil Bjarnardóttir, formaður


Jólatré sem Skógræktarfélag Garðabæjar ræktar í Brynjudal í Hvalfirði eru seld á 

Jólamarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur.


 Gestir Jólaskógarins í Smalahoilti gæða sér á kakói og piparkökum. 

Síðast uppfært: Mánudagur, 18. desember 2017 09:50
 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

Síða 4 af 26

Viðburðadagatal

Janúar 2019
M Þ M F F L S
31 1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31 1 2 3

Skoðanakönnun

Hvað er uppáhalds tréð þitt