Skip to main content
All Posts By

einar

Haustferð 2019 – Dagskrá

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 14. september um Suðvesturland
Félagið leggur til rútu til ferðarinnar en þátttakendur þurfa að hafa með sér hádegisnesti.

Dagskrá:
• Lagt verður af stað frá bílastæðinu bak við blokkirnar við Kirkjulund 12 og 14, kl. 9:00.
• Fyrsta stopp er við Mógilsá, fræðsla og leiðsögn um skóginn.
• Álfholtsskógur í Hvalfjarðasveit – leiðsögn um skóginn. Borðum hádegisnesti í skóginum þar sem Skógræktarfélag Skilmannahrepps býður upp á kaffi og kakó.
• Heimsókn til Hilmars og Hugrúnar í sumarbústaðaland þeirra í Svarfhólsskógi í Svínadal.
• Síðasta stopp verður í Brynjudal í Hvalfirði þar sem jólatrjáareitur Skógræktarfélags Garðabæjar verður heimsóttur.
• Heimkoma er áætluð um kl. 17.

Þeir, sem hyggjast taka þátt í þessari ferð, þurfa að tilkynna það sem fyrst og eigi síðar en fimmtudags-kvöldið 12. september til Kristrúnar Sigurðardóttur formanns, í síma 866-3164 eða á netfangið kristrun@islandia.is

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 14. september.

Haustferð Skógræktarfélagsins

Með Fréttir

Styttist í haustferð

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 14. september n.k. um Suðvesturland.
Félagið leggur til rútu til ferðarinnar en þátttakendur þurfa að hafa með sér nesti. Heimsótt verða áhugaverð ræktunarsvæði í skógum og sumarhúsaeigendur heimsóttir. Nánar auglýst síðar.

Haustferðir Skógræktarfélags Garðabæjar eru í senn fræðandi og skemmtilegar.

Fjölmenni á skógardegi í Sandahlíð

Með Fréttir

Rúmlega hundrað manns á öllum aldri naut veðurblíðunnar á skógardegi í Sandahlíð laugardaginn 22. júní. Fjölskyldufólk var áberandi meðal gesta enda dagskráin sérstaklega skipulögð með það í huga. Meðal annars gátu gestir lært að tálga flautur, grilla brauð og sykurpúða yfir opnum eldi, spila á slagverk úr grisjunarviði og farið í fræðandi og skemmtilegan ratleik um skóginn.

Gleði skein úr hverju andliti og jafnt gestir sem skipuleggjendur hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar voru ánægðir með hvernig til tókst. Viðburðir sem þessir eru afar mikilvægir í starfi skógræktarfélagsins enda uppgötva þá margir þær útivistarperlur sem skógræktarsvæðin eru og þá góðu aðstöðu sem þar hefur verið byggð á undanförnum árum og áratugum.

Þetta er annað árið í röð sem Skógræktarfélag Garðabæjar stendur að skógardegi í Sandahlíð í tengslum við ,,Líf í lundi“ en það er átak á vegum skógargeirans sem miðar að því að fá fólk til að koma saman í skóginum og gera sér glaðan dag. Ekki var annað að sjá en að það hefði tekist fullkomnlega að þessu sinni.

 

Jafnt ungir sem aldnir hafa gaman af því að grilla sykurpúða og snúrubrauð yfir opnum eldi. Mynd: Einar Jónsson

Boðið var upp á leiðsögn í tálgun og snéru sumir heim úr skóginum með handsmíðaða flautu í vasanum. Mynd: Einar Jónsson

Ein besta leiðin til að kynnast skóginum í Sandahlíð og umhverfi hans er að bregða sér í fróðlegan og skemmtilegan ratleik um hann. Mynd: Einar Jónsson

 

Gestir njóta veðurblíðunnar í Sandahlíð. Mynd: Jónatan Garðarsson

Grisjunarviður er til margra hluta nytsamlegur og fengu gestir að spreyta sig á að galdra fram ýmis hljóð úr viðarbútum sem féllu til í skóginum. Mynd: Heimir Sigurðsson

Líf og fjör í skógarrjóðri. Mynd: Einar Jónsson

 

Skógardagur í Sandahlíð

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar efnir til Skógardags í Sandahlíð laugardaginn 22. júní kl. 13-15. Í boði verður fjölbreytt dagskrá í faðmi skógarins þar sem allir í fjölskyldunni ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

  • Bakað verður yfir eldi (snúrubrauð og sykurpúðar)
  • Skógarslagverk
  • Tálgun
  • Ratleikur
  • Skógarganga o.fl.

Dagskráin er liður í Lífi í lundi, samstarfsverkefni ýmissa aðila í skógargeiranum sem gengur út á að bjóða fólki að gera sér glaðan dag í skógum víða um land.

Allir velkomnir!

Mikið rusl í Smalaholti

Með Fréttir

Mikið rusl í Smalaholti

Tíu vaskir skógræktarfélagar tíndu rusl í Smalaholti í blíðunni 30. maí. Verkefnið er liður í hreinsunarátaki Gar’abæjar og jafnframt fjáröflun fyrir félagið. Áberandi var plast og plasteinangrun sem fokið hafði af byggingarsvæðum í nágrenninu en hvimleiðast er mikið magn af sígarettustubbum sem eru sérstaklega áberandi á áningarstöðum í skógarrjóðrum og á bílastæðum.

Ruslahreinsun í Smalaholti

Með Fréttir

Hreinsunarátak Skógræktarfélags Garðabæjar í Smalaholti

Kæru skógræktarfélagar og aðrir velunnarar.

Bjóðum sumarið velkomið með samveru í skóginum og hreinsum hann af óvelkomnu rusli.

Þriðjudaginn 30. apríl kl. 19:30 er boðað til hreinsunar á skógræktarsvæðinu í Smalaholti. Mæting á neðra plani. Verkefnið er liður í hreinsunarátaki bæjarins og jafnframt fjáröflun fyrir félagið.

Höfum gaman saman og hreinsum skóginn

Með skógarkveðju,

Stjórnin.

Formannsskipti í félaginu

Með Fréttir

Erla Bil hættir sem formaður

Sögulegur aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar var haldinn mánudaginn 18. mars 2019 en þá hætti Erla Bil Bjarnardóttir sem formaður félagsins til yfir 30 ára, eða frá stofnun þess 24. nóvember 1988. Erla Bil hefur stjórnað félaginu af miklum skörungskap frá upphafi og á hún bestu þakkir fyrir allt sem hún hefur unnið að fyrir skógrækt og útivist í Garðabæ.

Barbara Stanzeit gjaldkeri félagsins færði Erlu Bil blómvönd sem þakklætisvott frá félaginu.

Nýr formaður var kosinn á fundinum, Kristrún Sigurðardóttir fráfarandi varaformaður félagsins. Þá var Jón Ásgeir Jónsson skógfræðingur kosinn í varastjórn en við það lækkaði meðalaldur stjórnarmann til muna. Á fyrsta stjórnarfundi félagsins eftir aðalfund var Sigurður Þórðarson kosinn varaformaður Skógræktarfélags Garðabæjar.

Stjórn og varastjórn frá vinstri: Ásta Leifsdóttir, Sigurður Sigurkarlsson, Björn Már Ólafsson, Sigurður Þórðarson, Smári Guðmundsson, Einar Örn Jónsson, Kristrún Sigurðardóttir, Heimir Sigurðsson, Barbara Stanzeit, Jón Ásgeir Jónsson og Hildigunnur Halldórsdóttir.

 

Erla Bil færði Arndísi Árnadóttur blómvönd með þakklæti frá félaginu, en Arndís var ritari félagsins til margra ára og hefur séð um að senda út tölvupóst til félagsmanna undanfarin ár.

Á fundinum kynnti Einar Örn Jónsson nýuppfærða heimasíðu félagsins en gamla síðan var orðin úrelt og erfið í notkun en hún var opnuð 2010. Á síðunni er margvíslegar fróðlegar upplýsingar um félagið og sögu þess.

Fundinum lauk með erindi um fuglalíf í Garðabæ sem Ólafur Einarsson og Jóhann

Óli Hilmarsson sögðu frá í máli og myndum.

Einar Jónsson kynnir nýjan vef félagsins.

Aðalfundarboð

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar

18. mars 2019 – kl. 20:00

Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoll við Kirkjulund

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf:
  1. Kosning fundarstjóra
  2. Skýrsla stjórnar 2018
  3. Reikningar félagsins 2018
  4. Ákvörðun um félagsgjöld 2019
  5. Stjórnarkjör:
          • Kosning formanns
          • Kosning þriggja aðalmanna
          • Kosning þriggja varamanna
          • Kosning skoðunarmanns reikninga

 

  • Kynning á nýrri vefsíðu félagsins
  • Önnur mál
  • Kaffiveitingar í boði félagsins
  • Fuglalíf í Garðabæ

Jóhann Óli Hilmarsson og dr. Ólafur Einarsson halda erindi um fuglalíf í Garðabæ sem þeir hafa rannsakað í áraraðir. Í bæjarlandinu er fjölskrúðugt fuglalíf á skógræktarsvæðum ofan byggðar, við tjarnir, vötn og niður í fjörur.

Allir hjartanlega velkomnir

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

30 ára afmæli Skógræktarfélags Garðabæjar

Með Fréttir

Upphaf Skógræktarfélagsins

Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað 24. nóvember 1988 af áhugasömum bæjarbúum um ræktun og útivist. Félagið er eitt aðildarfélaga í Skógræktarfélagi Íslands. Smalaholtið, norðan Vífilsstaðavatns var fyrsta svæðið sem félagið fékk til skógræktar en holtið var þá berangur með stórum rofabörðum sem erfitt er að sjá fyrir sér á göngu um svæðið í dag. Í þá daga gekk sauðfé um holtið vor og haust, úr fjárhúsaborg í Kópavogi, þar sem kirkjugarðurinn er nú. Skógræktarfélagar þurftu því að stugga við fénu sem beit ofan af smáplöntunum. Árið 1994 fékk félagið Sandahlíð ofan Kjóavalla til yfirráða til skógræktar og þar þurfti einnig að reka sauðfé sem var þar á beit frá Vatnsendabýlinu. Sandahlíðin var þá illa farin, gróður víða rofinn með djúpum vatnsfarvegum niður hlíðina og áberandi rofabörð. Í dag eru þessi svæði vaxin skógi með göngustígum, bekkjum, grillaðstöðu og leiktækjum, öllum til yndisauka.

Gróðursetning í Smalaholti í maí 1988.

 

Skógræktarfélagið fékk mikinn meðbyr bæjarbúa strax í upphafi, þar sem flest félagasamtök í bænum þáðu að taka land í fóstur, hittast í Smalaholti og setja niður tré í reitina sína. Félögin heimsækja reglulega skógarreitina og t.d. gróðursettu Kvenfélagskonur í sumar trjáplöntur í reitinn sinn til að kolefnisjafna ferð félagsins til Edinborgar. Einnig hafa margir einstaklingar og fjölskyldur tekið svæði í fóstur.

 

 

Frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetur fyrstu plöntuna í Smalaholti.

Landsátak í Landgræðsluskógum hófst 1990 í Smalaholti, með þátttöku fjölda fólks ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta sem gróðursettu fyrstu birkiplönturnar í átakinu á landsvísu. Með þátttöku Skógræktarfélagsins í þessu merka verkefni fengust úthlutaðar skógarplöntur til gróðursetningar sem félagið meðal annars úthlutaði til félaga sem voru með reiti.

 

Göngustígar í Smalaholti og Sandahlíð

Útivist i bæjarlandinu hefur aukist með árunum og hefur Skógræktarfélagið staðið fyrir lagningu göngustíga í Smalaholti og Sandahlíð til að auðvelda íbúum að njóta útivistar í fjölbreyttu og fallegu umhverfi. Þá hefur verið komið fyrir bekkjum meðfram stígum og veglegir áningarstaðir reistir í Smalaholti og í Sandahlíð með grillaðstöðu og leiktækjum. Meðfram stíg í vestanverðu Smalaholti hefur verið plantað fjölbreyttum trjám sem merkt hafa verið með nöfnum þeirra til fróðleiks og fræðslu. Árið 2013 gaf félagið út útivistarkort með yfirliti yfir stíga á skógræktarsvæðunum. Kortið er aðgengilegt við aðkomu í Smalaholt og Sandahlíð ásamt skilti með korti af svæðunum og á www.skoggb.is. Einnig er hægt að finna kort af svæðunum á kortavef Garðabæjar.

Um skógræktarsvæðin í Tjarnholtum og í Hádegisholti hafa ekki enn verið lagðir útivistar-stígar um svæðin, en útskot fyrir bíla er komið við Elliðavatnsveg neðan Hádegisholts.

Félagsstarf

Félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar í jólatrjáareit félagsins í Brynjudal í Hvalfirði.

Skógræktarfélag Garðabæjar er félag fyrir alla fjölskylduna með um 320 félagsmenn. Fyrstu árin komu félagsmenn reglulega saman á vinnu- og samverukvöldum á sumrin til að planta og hlúa að gróðri, en nú eru svæðin nær full plöntuð. Aðal vinnan í dag er við umhirðu á svæðunum s.s. slátt á lúpínu meðfram stígum, grisja skóginn, bera ofan í stíga o.fl. sem er að mestu unnið af vertökum.

Í Brynjudal í Hvalfirði hefur félagið fengið svæði til umráða þar sem félagar hafa farið árlega til þess að planta trjám til notkunar sem jólatré í framtíðinni. Einnig eru eldri tré snyrt og hlúð að þeim. Nú þegar hafa verið höggvin jólatré úr þessum lundi.

Síðastliðið vor tók skógræktarfélagið þátt í verkefninu „Líf í lundi“ sem er fjölskyldudagur í skógum landsins. Þá var plantað í svokallaðan Fullveldislund í Sandahlíð og tóku félagsmenn og gestir á öllum aldri þátt í því.

Í landi Vífilsstaða hefur félagið aðstöðu þar sem plöntur eru í uppeldi áður en þeim er plantað út á skógræktarsvæðin.

Skógræktarfélagið hefur tvisvar með nokkurra ára millibili látið gera úttekt á fuglalífi á skógræktarsvæðunum þar sem fram kemur þéttleiki fugla og breytingar á fuglalífi á tímabilinu, sjá skýrslu á www.skoggb.is

Aðild að Skógræktarfélagi Garðabæjar er öllum áhugasömum opin hvort sem viðkomandi ræktar skóg eða bara vill vera þátttakandi í góðum félagsskap.

Haustferðir

Úr haustferð Skógræktarfélagsins.

Félagsmönnum hefur verið boðið í haustferðir félagsins undanfarin 20 ár. Um er að ræða dagsferðir þar sem ræktendur utan og innan höfuðborgarsvæðisins eru heimsóttir og fleira áhugavert skoðað. Þessar ferðir hafa verið vinsælar og víða hefur verið komið við. 

Jólaskógur í heimabyggð

Opinn jólaskógur er fastur liður í starfsemi félagsins. Þá er tekið á móti fjölskyldum í skóginum þar sem þær geta valið sér jólatré og sagað sjálf. Einnig er boðið upp á heitt kakó og piparkökur í jólastemningu.

Yrkjugróðursetningar

Grunnskólanemendur í Garðabæ hafa reglulega komið á svæðin og gróðursett birkiplöntur sem þeir fá úthlutað úr Yrkjusjóði sem stofnaður var 1990 til heiðurs frú Vigdísi Finnbogadóttur á sextugsafmæli hennar. Enda vildi hún fá unga fólkið til þátttöku að klæða landið skógi sem sannarlega hefur tekist. Grunnskólar bæjarins hafa verið þátttakendur Yrkjuverkefnisins frá upphafi. Haustið 2017 byrjuðu grunnskólanemendur að gróðursetja birkiplöntur á Bessastaðanesi.

 

Fræðslu og myndakvöld

Félagið hefur undanfarin ár staðið fyrir myndakvöldum sem að þessu sinni verður haldið mánudaginn 26. nóvember í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli og hefst kl. 20:00. Þar verður sögð ferðasaga í máli og myndum frá ferð nokkurra félagsmanna með Skógræktarfélagi Íslands til Spánar í október, m.a. í þjóðgarð í Pýrenafjöllum.

Áhugafólk um skógrækt og náttúru hefur gagn og gaman af skoðunarferðum erlendis. Skógræktarfélag Íslands skipuleggur árlega slíkar ferðir fyrir skógræktarfólk á landsvísu, um náttúrusvæði, þjóðskóga og jafnframt er fræðst um menningu viðkomandi lands. Fyrir þá sem hafa farið í slíkar ferðir er gaman að rifja upp ferðirnar og ekki síður er áhugavert fyrir alla að fræðast um skógrækt og menningu annarra landa.

Aðalfundur félagsins er haldinn að vori og á fundinn hafa verið fengnir fræðimenn sem hafa frætt félagsmenn um ýmislegt varðandi skipulagsmál, skógrækt og garðrækt.

Nánari upplýsingar um Skógræktarfélagið á www.skoggb.is

Erla Bil Bjarnardóttir, formaður