Skip to main content

Haustferð

Með september 19, 2013janúar 21st, 2019Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Árleg haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var að þessu sinni farin laugardaginn 7. september um Reykjavík og nágrenni.

 

Ferðin hófst í Lambhaga þar sem skoðuð var öflug og áhugaverð salat- og spínatræktun undir leiðsögn eiganda fyrirtækisins, Hafbergs Þórissonar. Þaðan lá leiðin í Kálfamóa á Keldum þar sem Jóhann Pálsson, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, sýndi okkur fjölbreytta trjáræktun sem hann hefur unnið að í yfir 60 ár.

 

Næst lá leiðin upp í Mosfellsbæ þar sem við fengum leiðsögn um ræktun Maríu og Erichs Köppel um landspildu sem þau fengu úthlutaða hjá Skógræktarfélgi Mosfellsbæjar í Hamrahlíðinni. Þar er fjölbreyttur gróður í snyrtilegu umhverfi sem þau hjón hafa unnið að undanfarin 15 ár. Um hádegisbil var haldið upp að Hafravatni þar sem skoðað var landsvæði Vilhjálms Lúðvíkssonar og fjölskyldu, ræktun sem hófst fyrir hálfri öld. Þar er farið að rækta ávaxtatré og rósir í skjóli trjánna með ótrúlegum árangri.

 

Að lokum heimsóttum við Jón Þorgeirsson og Guðrúnu Bóasdóttur í Seljadal sem liggur út frá Nesjavallaleið. Svæðið liggur í um 160 metra hæð þar sem allra veðra er von, en árangur af ræktun þeirra hjóna er ótrúlegur í ljósi þess að þau hófu hana aðeins fyrir fjórtán árum (1999). Þarna mátti finna hvert yndisskógatréð eftir annað, eins og við skógræktarfólk köllum þau tré og trjáplöntur sem þurfa skjól. Þarna voru eikur, gullregn, ýmsir eðalþinir og margt fleira sem dafnar með miklum ágætum í hrjóstrugu landinu. Galdurinn virðist vera að búa til stórar holur og þurfti yfirleitt járnkarl til að grafa og fylla síðan með hálfum hjólbörum af skít.

 

Í haustferðina mættu 32 félagar úr Skógræktarfélaginu og var hún ákafleg ánægjuleg og fróðleg sem endra nær.

 

Með haust kveðju