Skip to main content

Lög

Skógræktarfélag Garðabæjar

Lög félagsins samþykkt á aðalfundi 1999

1. grein.

Félagið heitir Skógræktarfélag Garðabæjar. Félagið er aðili að Skógræktarfélagi Íslands sem héraðsskógræktarfélag. Heimili félagsins og varnarþing er í Garðabæ.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

2. grein.

Markmið félagsins er að vinna að framgangi skógræktar og trjáræktar í Garðabæ og  landgræðslu og stuðla að góðri umgengni á útivistarsvæðum í bænum með því að:

2.1       Efla áhuga bæjarbúa á trjárækt, landgræðslu og gróðurvernd.

2.2       Veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt, trjárækt, gróðurvernd og landgræðslu.

2.3       Hvetja einstaklinga og félög til að gróðursetja tré og runna við heimili sín, fyrirtæki og stofnanir og til að stuðla að hverskonar umhverfisbótum.

2.4       Vinna að verndun þeirra skógarreita, sem fyrir eru í bæjarlandinu og koma upp nýjum í samvinnu og samráði við bæjaryfirvöld, landeigendur og annað áhugafólk.

3. grein.

Félagið hefur  samvinnu við Skógrækt ríkisins um framkvæmdir og öflun fræs og trjáplantna.

Félagið aflar fjár til starfsemi sinnar með félagsgjöldum og með því að leita fjárhagslegs stuðnings frá bæjaryfirvöldum, stofnunum, félögum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Félagið aflar sér ræktunarlanda svo sem kostur er. Það úthlutar skikum til félaga, skóla og einstaklinga í Garðabæ til skógræktar í þeim löndum, sem það fær til umráða.

4. grein.

Félagar geta þeir orðið, sem hafa áhuga á markmiðum félagsins og uppfylla eitt eftirfarandi skilyrða:

4.1       Greiða félagsgjöld, sem aðalfundur ákveður.

4.2       Gerast ævifélagar með því að greiða tvítugfalt félagsgjald í eitt skipti fyrir öll.

4.3       Er félag eða stofnun, sem greiða minnnst fimmfalt félagsgjald.

4.4 Er heiðursfélagi kjörinn á aðalfundi samkvæmt tillögum stjórnar félagsins.

5. grein.

Stjórn félagsins skipa 7 menn. Aðalfundur kýs formann félagsins og 6 meðstjórnendur og 4 menn í varastjórn að auki. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund, kýs sér varaformann, ritara og féhirði. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og ganga þeir úr stjórn til skiptis 3 meðstjórnendur og 2 varamenn hvort ár. Aðalfundur kýs ennfremur einn skoðunarmann og einn til vara til tveggja ára. Nú er varamaður kjörinn í aðalstjórn á miðju kjörtímabili hans og skal þá kjósa varamann í hans stað á þeim sama fundi til loka kjörtímabilsins.

6. grein.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 30. apríl ár hvert, og boða með fundarboði eða auglýsingu með minnst viku fyrirvara. Aukafundi má halda þess á milli, ef stjórninni þykir ástæða til, eða ef minnst tíu félagar æskja þess.  Stjórnin ákveður fundarstað og stund og boðar fund með dagskrá.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

6.1       Skýrsla um starfsemi félagsins undanfarið starfsár.

6.2       Endurskoðaðir reikningar félagsins.

6.3       Ákvörðun á félagsgjaldi.

6.4       Kosning samkvæmt félagslögum.

6.5       Önnur mál.

Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

7. grein.

Stjórnin annast rekstur félagsins og tekur ákvarðanir fyrir þess hönd milli aðalfunda. Hún skipuleggur framkvæmdir og hefur eftirlit með eignum félagsins, semur tillögur um framtíðarstarf þess og sækir um styrki til framkvæmda.

8. grein.

Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf tvo þriðju hluta atkvæðisbærra fundarmanna til. Atkvæðisbærir eru þeir, sem skráðir eru í félagaskrá. Verði félagið lagt niður skal stjórn þess afhenda bæjarsjóði Garðabæjar lönd þess og eigur.