Skip to main content

Græni trefillinn

Umvefur byggðina

Græni trefillinn er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu. Hann var  staðfestur í Svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið árið 2002 sem og aðalskipulagi einstakra sveitarfélaga.

Tildrög hugmyndarinnar um Græna trefilinn má rekja aftur til ársins 1992, er forsvarsmenn skógræktarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu komu saman og ákváðu að safna saman gögnum um útivistarstíga á svæðum félaganna. Þau gögn voru þá varðveitt á allskonar teikningum og rissum hjá félögunum. Til verkefnisins voru fengnir landslagsarkitektar hjá Reyni Vilhjálmssyni, síðar Landslagi ehf. Forsvarsmenn félaganna vildu skoða stíganetið heildstætt og hvað bæri í milli að tengja svæðin saman sem mynduðu eina heild ofan höfuðborgarsvæðisins. Þessu heildstæða verki var skilað til viðkomandi bæjaryfirvalda/skipulagsmála og til höfuðstöðva skógræktarfélaganna, þ. e. Skógræktarfélags Íslands.

Oft þarf tíu ár til að tala upp verkefni, en mikilvægur áfangi náðist er Græni trefillinn komst á Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2002. Þá vissu fáir hvað Græni trefillinn væri, en nú kannast flestir við hann.

Skógræktarsvæðin eru útivistarsvæði fyrir allan almenning sem virðir gróður og góða umgengni. Svæðin eru nýtt af ýmsum hópum, hestamönnum, hundaeigendum, hjólreiðafólki og skíðaiðkendum.