Fróðleg haustferð

Með september 21, 2019 Fréttir

Tuttugu skógræktarfélagar tóku þátt í árlegri haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar um Suðvesturland laugardaginn 14. september í frekar rysjóttu veðri. Skoðaðir voru skógar bæði á Mógilsá í Kollafirði þar sem Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, tók á móti hópnum og Álfholtsskógur í Hvalfirði en þar tók Reynir Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Skilmannahrepps, á móti okkur. Báðir þessir skógar eru ákaflega fallegir og fjölbreyttir sem gaman er að heimsækja og njóta, svo ekki sé talað um að geta verið í logni þegar vindurinn blæs allt í kring.

Haustferðin var afskaplega ánægjuleg, fróðleg og nærandi þrátt fyrir að haustlægð væri með í för.

 

Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélagsins, hefur sáð fyrir og ræktað ófáar trjáplönturnar fyrir félagið í gegnum tíðina. Í ferðinni sýndi hún okkur inn í gróðurhús við Mógilsá þar sem félagar í Trjáræktarklúbbnum hafa aðstöðu til að ala upp plöntur.

 

 

Í haustferðum félagsins er gestgjöfum færðar plöntur sem oftar en ekki koma úr ræktun Barböru. Barbara afhendir Reyni Þorsteinssyni, formanni skógræktarfélags Skilmannahrepps, plöntur með þakklæti fyrir móttökurnar.

Hilmar Ingólfsson og Hugrún Jóhannesdóttir tóku höfðinglega á móti hópnum í sumarbústað þeirra hjóna í Svarfhólsskógi í Svínadal. Gróður er mjög fjölbreyttur og fallegur við bústaðinn.