Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Sveiflum haka og rætkum nýjan skóg

Með Fréttir

Fyrsta vinnukvöld Skógræktarfélags Garðabæjar heppnaðist svo vel að ákveðið hefur verið að blása til annars á morgun, mánudaginn 3. júní. Safnast verður saman við aðstöðu félagsins við Vífilsstaðaveg kl. 19 og farið þaðan á skógræktarsvæðin þar sem haldið verður áfram með áburðargjöf, hreinsun meðfram stígum og lagfæringar og snyrtingar. Þá stendur einnig til að gróðursetja nokkur tré.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

 

 

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2024

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar verður haldinn í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli mánudaginn 8. apríl kl. 20:00.

Dagskrá fundarins

 • Hefðbundin aðalfundarstörf.
 • Önnur mál.
 • Kaffihlé.
 • Fræðsluerindi: Innrétting skógarins. Samson B. Harðarson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Allir hjartanlega velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Garðbæingar flykktust í Jólaskóginn

Með Fréttir

Fjöldi fólks kom í jólaskóginn í Smalaholti á laugardaginn enda er sterk hefð fyrir því í mörgum fjölskyldum að fara í jólaskóginn og finna draumatréð fyrir heimilið. Gestir urðu ekki fyrir vonbrigðum að þessu sinni heldur snéru glaðir í bragði og rjóðir í kinnum úr skóginum með fenginn í eftirdragi. Þá var gott að þiggja heitt súkkulaði og eitthvað sætt að maula á meðan trénu var rennt í gegnum tromluna. Tæplega 80 tré seldust að þessu sinni og rennur allur ágóði til Skógræktarfélags Garðabæjar. Það munar um minna fyrir  félagið sem ber hitann og þungann af ræktun og umhirðu í Smalaholti og víðar í bæjarlandinu. Skógræktarfélag Garðabæjar þakkar bæjarbúum kærlega fyrir komuna og stuðninginn og hlakkar til að taka á móti þeim að ári.

Helga Thors, stjórnarmaður í félaginu, fangaði stemninguna á myndir.

Fjölbreytt starf á árinu

Með Fréttir

Það er óhætt að segja að starfsemi Skógræktarfélags Garðabæjar hafi verið með blómlegasta móti á árinu samkvæmt nýútkominni starfsskýrslu félagsins. Meðal annars stóð félagið fyrir haustferð, vinnukvöldum, bauð grunnskólanemum að gróðursetja Yrkjuplöntur og sinnti umhirðu og uppbyggingu útivistarskóganna vinsælu í Smalaholti og Sandahlíð.

Hér má nálgast starfsskýrsluna:

Ársskýrsla Skógræktarfélags Garðabæjar 2023.

Jólaskógur í Smalaholti

Með Fréttir

Jólaskógur í Smalaholti

laugardaginn 9. desember kl. 11:30–15:00.

 

Fjölskyldan velur sér tré í skóginum og fellir sjálf.

Fallegar furur og greni.

Sama verð á öllum jólatrjám óháð stærð,

Kr. 8.000

 

Aðkoma að skóginum í Smalaholti er

frá Elliðavatnsvegi norðan við Vífilsstaðavatn.

Haustferð 2023

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 16. september n.k. um Reykjanes og Ölfus.

Félagið leggur til rútu til ferðarinnar en þátttakendur þurfa að hafa með sér hádegisnesti.

Dagskrá:

 • Lagt af stað frá bílastæðinu bak við blokkirnar við Kirkjulund 12 og 14, kl. 9:00.
 • Fyrsta stopp er við Háabjalla sem er ræktunarsvæði Skógræktarfélagsins Skógfells í Vogum þar sem Oktavía Ragnarsdóttir formaður félagsins mun taka á móti okkur.
 • Frá Háabjalla verður ekið til Grindavíkur þar sem Pálmar Guðmundsson formaður Skógræktarfélags Grindavíkur mun taka á móti okkur og kynna okkur ræktun Selskógarins í hlíðum fjallsins Þorbjarnar.
 • Frá Grindavík verður ekið um Suðurstrandarveg að Bugum í Ölfusi þar sem hjónin Aðalsteinn Sigurgeirsson og Steinunn Geirsdóttir hafa ræktað mikið skógræktarsvæði við sumarbústað sinn. Hádegisnesti verður borðað þar.
 • Að lokinni skoðunarferð um svæðið við Buga verður ekið til hjónanna Vésteins Rúna Eiríkssonar og Hörpu Karlsdóttur og skógræktarreitur þeirra skoðaður. Reiturinn er í Ölfusinu nokkru norðar.
 • Að lokinni skógargöngunni verður haldið heim á leið og er heimkoman í Garðabæ áætluð um kl. 17.

 

 • Þeir, sem hyggjast taka þátt í þessari ferð þurfa að tilkynna það sem fyrst og eigi síðar en fimmtudags-kvöldið 14. september til: Sigurðar Þórðarsonar formanns, í síma 864-5038 eða á netfang; sigthordar@internet.is

Starfsskýrsla 2021-2022 á netið

Með Fréttir

Blómlegu starfi Skógræktarfélags Garðabæjar er gerð góð skil í starfsskýrslu félagsins fyrir starfsárið 2021-2022 sem hefur nú verið birt á netinu. Meðal annars er þar fjallað um vinnukvöld, haustferð, Yrkjugróðursetningar og Smalaholtsmálið.

Nálgast má skýrsluna hér.

 

Árlegur rekstrarstyrkur félagsins hækkar

Með Fréttir

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, skrifuðu undir endurnýjaðan samning milli bæjarins og skógræktarfélagsins á aðalfundi Skógræktarfélags Garðabæjar 20. mars. Miðað er við að samningurinn gildi í tvö ár og skal endurskoðaður að þeim tíma liðnum en komi ekki til þess skal hann endurnýjast um tvö ár. Árlegur rekstrarstyrkur bæjarins til félagsins hækkar úr 3.000.000 kr. í 3.500.000 samkvæmt nýja samningnum.

Á fundinum var Sigurður Þórðarson kosinn formaður félagsins og tók við því hlutverki af Kristrúnu Sigurðardóttur. Kristrúnu voru færðar gjafir og þakkir fyrir hennar framlag til félagsins. Jafnframt var Helga Thors kjörin ný í stjórn en Kristrún gaf ekki kost á sér til frekari stjórnarsetu.

Að lokum hélt Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, fróðlegt og áhugavert erindi um yndisskóginn.

Kristrún Sigurðardóttir, fráfarandi formaður Skógræktarfélags Garðabæjar og arftaki hennar, Sigurður Þórðarson.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, ávarpar aðalfund Skógræktarfélags Garðabæjar.

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2023

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2023

Mánudaginn 20. mars kl. 20:00 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli

 

DAGSKRÁ

 • Venjuleg aðalfundarstörf:
 1. Kosning fundarstjóra
 2. Skýrsla stjórnar milli aðalfunda 2022-2023
 3. Reikningar félagsins 2022
 4. Ákvörðun um félagsgjöld 2023
 5. Kosning formanns
 6. Stjórnarkjör
 • Önnur mál.

Undrritun á endurnýjun Samstarfssamnings Garðabæjar og Skógræktarfélagsins

 • Kaffiveitingar í boði Skógræktarfélagsins
 • Fræðsluerindi; Yndisskógurinn

Kristinn H. Þorsteinson framkvæmdstjóri Skógræktarfélags Kópavogs segir frá í máli og myndum.

Allir hjartanlega velkomnir

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Enginn jólaskógur vegna ófærðar

Með Fréttir

Því miður verður ekki hægt að hafa jólaskóg í Smalaholti í dag, sunnudag, vegna ófærðar. Við bendum áhugasömum á jólatrjáavef Skógræktarfélags Íslands þar sem nálgast má upplýsingar um jólatrjáasölu á vegum skógræktarfélaganna: https://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/.