Aldamótaskógar

Með mars 15, 2010 janúar 21st, 2019 Fréttir

Aldamótaskógar

Í tilefni þúsaldamóta árið 2000 og 70 ára afmæla Skógræktarfélags Íslands og Kaupþings var stofnað til svokallaðra Aldamótaskóga á fimm svæðum á landinu, einu í hverjum landshluta. Aldamótaárið 2000 gróðursettu sjálfboðaliðar og starfsmenn skógræktarfélaga liðlega 280 þúsundir skógarplantna, eina fyrir hvern Íslending, en Kaupþing lagði til plöntur og áburð. Af skog.is

 

Að sjálfsögðu tóku skógræktarfélagar í Garðabæ vel við þeirri kvaðningu að rækta aldamótaskóg á Suðurlandi. Félaginu var úthlutaður reitur nr. 6, suðaustan undir háu rofabarði í landi Gaddstaða austan Hellu á Rangárvöllum.

Helgina 17. – 20. ágúst 2000 hófst gróðursetningin, er fjöldi fólks mætti á svæðið frá skógræktarfélögum á Suður- og Suðvesturhorni landsins undir stjórn Skógræktarfélags Rangæinga. Þá mettaði Markús Runólfsson þáverandi formaður Rangæinga mannfjöldann með pylsum og brauði, (hann lést 2002).

Samkvæmt dagbók félagsins voru gróðursettar í reitinn 7000 birkiplöntur og 400 sitkagreni, af 40 þátttakendum.

Síðan hefur reiturinn verið heimsóttur nokkuð reglulega, einu sinni á sumri. Þá er hlúð að plöntum, gefinn áburður og gróðursettar fleiri tegundir, aðallega víðitegundir. Góð spretta hefur verið þarna í sandinum sem tilbreyting er að takast á við, miðað við holtin í Garðabænum.