Vígsla á Trjásýnistíg

Með ágúst 11, 2011 janúar 21st, 2019 Fréttir

Trjásýnistígur í Smalaholti vígður

Nýr útivistarstígur var opnaður formlega í Smalaholti þriðjudaginn 9. ágúst s.l. hann er að hluta trjásýnistígur. Fjöldi manns mætti við opnunina í sumarblíðunni þar sem bæjarstjóri Garðabæjar Gunnar Einarsson og Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands klipptu á borða í tilefni af opnuninni. Gengið var um stíginn og að göngu lokinni þáðu gestir veitingar og nutu veðurblíðunnar undir hljóðfæraleik Emils Friðfinnssonar. Stígurinn er hluti af útivistarstígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar fékk skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af skógræktarhópum frá Garðabæ. Framkvæmdin er hluti verkefna sem unnin eru samkvæmt samstarfssamningi Skógræktarfélagsins, Garðabæjar og Skógræktarfélags Íslands.

Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er norðan Vífilsstaðavatns og er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Í Smalaholti hefur myndast skjólgóður skógur með fjölbreyttum gróðri sem auðvelt er að njóta með tilkomu göngustíga.