Skip to main content

Vífilsstaðir 100 ára

Með ágúst 31, 2010janúar 21st, 2019Fréttir

Skóg- og trjárækt í landi Vífilsstaða

 

Ungt skógræktarfélag

Þegar áhugafólk um skógrækt óskaði eftir  spildu til skógræktar í Smalaholti hjá þáverandi yfirlækni Hrafnkatli Helgasyni sumarið 1988, var þeirri bón ljúfmannlega tekið. Það greiddi götuna til stjórnar Ríkisspítalanna, sem er eigandi Vífilsstaða. Eftir að landsvæði var fengið í Garðabæ til skógræktar, var Skógræktarfélag Garðabæjar stofnað um haustið 24. nóvember. Á Smalaholti hefur vaxið upp ungskógur síðan. Félagið fékk til liðs við sig öll félagasamtök í bænum, úthlutaði hverju félagi um 1 hektara spildum til ræktunar. Grunnskólarnir fengu einnig reiti til gróðursetningar nemenda sinna og að koma Yrkjuplöntum þeirra í mold. En grunnskólar landsins hafa síðan 1990 fengið úthlutað plöntum til gróðursetningar úr afmælissjóði frú Vigdísar Finnbogadóttur. Nú er Smalaholtið skrýtt skógi fjölbreyttra tegunda. Þar hefur fuglafánan orðið fjölbreyttari með árunum. Félagið lét í tilefni tuttugu ára afmælis síns skipuleggja útivistarsvæði á Smalaholti, með stígum og áningarstöðum. Fyrsti áfangi verkefnisins hófst sumarið 2009 er félagið gerði samning um atvinnuátak við Skógræktarfélag Íslands og Garðabæ um lagningu útivistarstíga o.fl. á skógræktarsvæðunum. Áfram var haldið nú í sumar og komin er áhugaverður hringur í hlíðum Smalaholts.

Skógræktarfélag Garðabæjar fékk síðar Sandahlíðina ofan Kjóavalla úr landi Vífilsstaða. Þar hefur félagið komið upp áningarstað með leiktækjum. Góð aðkoma er á báðum skógræktarsvæðunum með bílaplönum.

 

Heiðmörk

Heiðmörk er að hluta úr landi Vífilsstaða og að 1/3 innan lögsögu Garðabæjar. Þar má helst telja Vífilsstaðahlíð og Grunnuvötn.  Árið 1957 fékk Skógræktarfélag Reykjavíkur til sín viðbótarland með samningi við Stjórnarnefnd ríkisspítalanna, var það gert með samþykki Helga Ingvarssonar, þáverandi yfirlæknis. Til viðbótar samningnum stendur „Enn fremur tekst Skógræktarfélagið á hendur að girða landspildu í framhaldi af fyrrnefndu landi frá gömlu girðingunni heim undir Setuliðsveg (Flóttamannaveg nú Elliðavatnsveg) umhverfis Vífilsstaðavatn. Þannig fékk ungt sveitarfélag góða girðingu, til nokkurra áratuga, umhverfis Vífilsstaðavatn sem hýsti vatnsból byggðarinnar. Má ætla að þessi aðgerð hafi ekki síst verndað vatnið og umhverfi þess.

Fyrsta girðingin til verndar skógargróðri í hrauninu og Vífilsstaðahlíð var reist á fyrstu árum Hælisins með fjárstyrk frá Baðhúsfélagi Reykjavíkur. Í ráðsmannstíð Björns Konráðssonar var mikið land girt til að friða kjarrið fyrir beit, en margt fé kom þá sunnan úr Hafnarfirði. Um 1930 lét Björn  ráðsmaður m.a. girða af Vífilsstaðahlíð.

Í Vífilsstaðahlíð er risinn þéttur skógur, þar sem greni er áberandi. Lagðir hafa verið útivistarstígar um hlíðina og áningastaðir með einu grillskýli.

 

Trjásveigarnir á Vífilsstöðum

Sunnan við aðalbygginguna á Vífilsstöðum eru reisulegir trjáreitir mest úr greni og öspum er mynda sveiga og oft nefndir sem slíkir. Þessa boga teiknaði Jón H. Björnsson, ungur landlagsarkitekt, þá nýútskrifaður frá Cornell-háskólann 1951. Trjásveigarnir á Vífilsstöðum þykja svipa til hugmyndafræði enska garðstílsins. Jón var mikilvirkur landslagshönnuður og garðplöntuframleiðandi á sinni starfsævi, en hann er nýlega látinn. Hann stofnaði gróðrarstöðina Alaska í Breiðholti með efnivið sem hann aflaði ásamt bróður sínum í Alaska áður en hann hélt heim frá námi. Hann hafði unnið á sumrin með námi hjá Skógstjórninni í Alaska. Líklegt er að trjágróðurinn í lundinum á Vífilsstöðum sé úr ræktun Jóns H. Björnssonar. Umsjón og ræktun lundarins var á hendi Jónasar Andréssonar garðyrkjumanns, einum af sjúklingum Hælisins, ásamt börnum starfsfólks Vífilsstaða. Lundurinn varð fyrir skaða í aprílhretinu 1963. Eitthvað var endurnýjað, en annað óx uppaf rótum kalinna trjáa aðallega aspa.

 

Lundurinn Bakki

Á austurbakka Vífilsstaðavatns er trjálundurinn Bakki. Marga fýsir að vita hvernig hann er tilkominn. Á tímum berklahælisins á Vífilsstöðum var fjöldi ungs fólks með starfsorku  bundið heima við Hælið vegna smithættu. Hörður Ólafsson vélstjóri var einn þeirra, hann fékk leyfi lækna Hælisins að girða af reit innan vatnsins vorið 1940 og gera tilraun til trjáræktar. Svæðið varð að girða fjárheldri girðingu vegna ágangs fjár á svæðinu. Að Herði dróst fleira ungt fólk sem vildi taka til hendinni, þar á meðal heitkona hans. Enginn var vegslóðinn að Bakka, þau fluttu  húsdýraáburð yfir vatnið á sleðum á ís. Hörður kom trjágróðri upp af fræi, í vermireitum á Bakka. Fyrsta sumarið reistu þau tjald, sem síðar varð bústaður sem Hörður byggði í einungum á Vífilsstöðum og flutti yfir vatnið á bátum sem hann smíðaði sjálfur. Í trjálundinum á Bakka er nú allhár skógarlundur, sem dregur til sín fugla og forvitið fólk.

 

Gamli Ungmennafélagslundurinn

Ungmennafélögin hófu starfsemi sína upp úr 1906. Á stefnuskrá þeirra var m.a.  að klæða landið skógi að nýju. Ungmennafélagsferðir voru farnar að Vífilsstöðum frá Reykjavík allt frá árinu 1911, þá var gróðursett í hlíðum og hrauni. Ungmennafélag Reykjavíkur tók þátt í skógræktardegi að Vífilsstöðum 1912 og heimildir herma að 2600 plöntur hafi verið gróðursettar á Vífilsstöðum þann skógræktardag. Líklegast hefur verið gróðursett þá í skógarlundinn norðan byggðarinnar á Vífilsstöðum við Vífilsstaðaveg, hann er kallaður ungmennafélagslundur. Einnig eru heimildir fyrir gróðursetningarferð Ungmennafélags Reykjavíkur að Vífilsstöðum í maí 1913. Það er því ljóst að allmiklar trjáræktartilraunir voru gerðar á fyrstu árum Hælisins og plönturnar skiptu þúsundum sem settar voru niður. En hér var við ramman reip að draga. Jarðvegur var grunnur og grýttur, lítið skjól, en þó var ekki gefist upp og árangur hefur verið sá að talsvert er af mismunandi trjám og runnum í lundinum sem áhugavert væri að skrásetja. Ekki ber heimildum saman um hvaðan plönturnar komu, annað hvort úr gróðrarstöðinni við Rauðavatn eða frá Hallormsstað. Skjólleysið á uppvaxtarárum og síðan aprílhretið 1963 hefur farið illa með gróðurinn.

 

Ritað í tilefni 100 ára afmælis Vífilsstaða

Erla Bil Bjarnardóttir

 

Heimildir:

Arndís S. Árnadóttir, „Trjárækt að Vífilsstöðum í 90 ár“, Skógræktarritið (1: 2002), bls. 81-87..

Erla Bil Bjarnardóttir, Vífilsstaðir í fortíð og framtíð, ritgerð frá Háskólanum á Hólum (2008).