Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2019

Tónvísir trjáræktendur

Með Fréttir

Sinfóníuhljómsveit Íslands lauk starfsári sínu í sumar með því að taka þátt í samstarfsverkefni við Tónverkamiðstöðina. Verkefnið gengur út á að styðja við og hlúa að yngstu tónskáldum landsins og svo skemmtilega vill til að það nefnist Yrkja, rétt eins og verkefni Skógræktarfélags Íslands sem gengur út á að fá skólabörn til að gróðursetja tré. Það var því vel við hæfi að enda daginn á því að yrkja jörðina með gróðursetningu á trjám í Smalaholti, ræktunarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar.

Hljóðfæraleikarar, starfsfólk og fjölskyldur þeirra fjölmenntu í fyrsta skipti í Smalaholt, nánar tiltekið í landnemareit sem Sinfóníuhljómsveitin hefur nú tekið að sér. Hildigunnur Halldórsdóttir, ritari Skógræktarfélags Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri félagsins, leiðbeindu fólki um gróðursetninguna og sérvöldu trjáplöntur sem henta í lúpínubreiður. Báðar tengjast þær einnig Sinfóníuhljómsveitinni, Hildigunnur sem fiðluleikari og Barbara sem fastagestur á tónleikum sveitarinnar til margra ára.

Gróðursetningin var liður í því að jafna kolefnisspor hljómsveitarinnar eftir velheppnaða tónleikaferð hennar til Japans. Hljómsveitin lék þar á 12 tónleikum í öllum helstu borgum landsins. Með í för var Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og japanski píanistinn Nobuyuki Tsujii. Samtals lék hljómsveitin fyrir um 25.000 tónleikagesti við frábærar undirtektir.

Framundan eru fleiri tónleikaferðir erlendis og verður gróðursetning héðan í frá fastur liður í félagsstarfi hljómsveitarinnar, ekki síst ánægjunnar vegna.

 

 

Ungir sem aldnir tóku þátt í gróðursetningardeginum í Smalaholti. Lucia Koczot, Oktavía Gunnarsdóttir og Gunnar Andreas Kristinsson hjálpast að við gróðursetningu. Mynd: Steef van Oosterhout.

Hildigunnur Halldórsdóttir, Barbara Stanzeit, Guðný Guðmundsdóttir, Rósa Hrund Guðmundsdóttir og Júlíana Elín Kjartansdóttir. Mynd: Steef van Oosterhout.

Vigdís Másdóttir og Jóel sonur hennar með myndarlega lúpínubreiðu í bakgrunni. Mynd: Steef van Oosterhout.

Gróðursett var í lúpínubreiður og því mikilvægt að velja stórar og þróttmiklar plöntur sem ekki yrðu undir í samkeppninni. Mynd: Steef van Oosterhout.

Nauðsynlegt reyndist að reita vel frá áður en plöntunum var stungið niður. Mynd: Steef van Oosterhout.