Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

ágúst 2008

Ágrip af sögu félagsins

Með Fréttir

Ágrip af sögu Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað 24. okt. 1988, af um 50 áhugasömum Garðbæingum um ræktun og útivist. Félagið er eitt aðildarfélaga í Skógræktarfélagi Íslands. Ólafur Vilhjálmsson, frá Bólstað, þáverandi formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir garðyrkjustjóri unnu að því að útvega landsvæði fyrir skógrækt í Garðabæ, en það var forsenda fyrir stofnun félagsins. Árið 1980 á ári „trésins“ hafði Jón Gauti Jónsson, þáverandi bæjarstjóri óskað eftir því að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar útvíkkaði starfsemina og næði til „og Garðabæjar“. Það fyrirkomulag var allt þar til Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað, með tilkomu Smalaholts fyrsta svæðis félagsins, fengið úr landi Vífilsstaða. Ólafur Vilhjálmsson taldi að áhugi Garðbæinga yrði ekki vakinn, né þátttaka í skógrækt, fyrr en svæði í bæjarlandinu kæmi til.

Þrátt fyrir að Skógræktarfélag Garðabæjar sé ungt að árum, hefur félagsstarf þess verið öflugt, enda félag fyrir alla fjölskylduna, með yfir þrjú hundruð félaga.

Félagið var í fararbroddi er átak um Landgræðsluskóga hófst í Smalaholti 10. maí 1990 með þátttöku frú Vígdísar Finnbogadóttur forseta, þingmanna, bæjarfulltrúa og fjölda fólks. Átakið var svo öflugt þetta sumar að um 70 þúsund trjáplöntur voru gróðursettar eða um 10 plöntur á hvern Garðabæing þá. Árin áður var búið að úthluta flestum frjálsum félagasamtökum, grunnskólunum og nokkrum fjölskyldum ræktunarreitum í Smalaholti. Landgræðsluskógaverkefnið stendur enn. Það byggist á, að skógræktarfélögunum í landinu er úthlutað trjáplöntum á svæðin sem eru úttekin af skógfræðingum S.Í. og gerðir eru þríhliða samningar um svæðin milli skógræktarfélagsins, bæjarfélagsins og S.Í. Skógræktarfélag Íslands, Skógrækt ríkisins og Landgræðslan hafa umsjón með verkefninu sem er styrkt af ríkissjóði.

Skógræktarfélagið hefur stutt bæjaryfirvöld í Garðabæ við öflun verkefna þegar skipuleggja hefur þurft verkefni fyrir ungmenni í sumarvinnu, svokallað atvinnuátak. Fyrir unga Garðbæinga hefur verið útveguð sumarstörf við landgræðslu, skógrækt og stígagerð á undanförnum árum. Það samstarf er beggja hagur.

Félagsstarf er öflugt, einn til tveir fundir að vetri með fræðslu um skógrækt, útivist og ferðalög. Haustferð félagsins, sem hefur verið helgardagsferð, er mjög vinsæl þar sem skoðaður er árangur ræktunar hjá öðrum.

Sjálfboðastarfi hefur verið haldið í gangi frá stofnun félagsins, með vinnu- og samverukvöldum á svæðunum á þriðjudagskvöldum í maí og júní. Einnig hefur einstaklingur unnið í mörg sumur við umhirðu á svæðunum. Félagið hefur síðustu ár einnig selt jólatré í litlu mæli úr ræktun sinni, sem er liður í félagsstarfi í desember. Með árunum hefur umsjónarsvæðunum fjölgað og umhirðan við áburðargjöf og annað orðin það viðamikil að nauðsyn er á að félagið ráði starfsfólk.

Umsjónarsvæði félagsins eru nú á Smalaholti, Hnoðraholti, Sandahlíð, Hádegisholti, Tjarnholtum, Leirdal og í Brynjudal.

Á tuttugu ára afmæli félagsins haustið 2008 var haldið málþing um skógrækt og útivist. Erindi um skógrækt, útivist, fugla og fornminjar voru flutt og kynnt var útivistarskipulag fyrir Smalaholt. Á sama tíma undirritaði Gunnar Einarsson bæjarstjóri fyrsta samstarfsamning Garðabæjar við skógræktarfélagið. Samningurinn gerir félaginu mögulegt að ráða umsjónarmann á svæðin yfir sumarmánuðina.

Skógræktarfélag Garðabæjar er unnið af Hornsteinum ehf. og gerir ráð fyrir göngustígum og áningarstöðum sem unnið verður að á næstu árum. Fyrsti áfangi útivistarstíga var lagður af atvinnuátaki sumarið 2009, svokallaður brúnastígur enda víðsýnt af efri brúnum Smalaholts.