Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2019

Fjölmenni á skógardegi í Sandahlíð

Með Fréttir

Rúmlega hundrað manns á öllum aldri naut veðurblíðunnar á skógardegi í Sandahlíð laugardaginn 22. júní. Fjölskyldufólk var áberandi meðal gesta enda dagskráin sérstaklega skipulögð með það í huga. Meðal annars gátu gestir lært að tálga flautur, grilla brauð og sykurpúða yfir opnum eldi, spila á slagverk úr grisjunarviði og farið í fræðandi og skemmtilegan ratleik um skóginn.

Gleði skein úr hverju andliti og jafnt gestir sem skipuleggjendur hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar voru ánægðir með hvernig til tókst. Viðburðir sem þessir eru afar mikilvægir í starfi skógræktarfélagsins enda uppgötva þá margir þær útivistarperlur sem skógræktarsvæðin eru og þá góðu aðstöðu sem þar hefur verið byggð á undanförnum árum og áratugum.

Þetta er annað árið í röð sem Skógræktarfélag Garðabæjar stendur að skógardegi í Sandahlíð í tengslum við ,,Líf í lundi“ en það er átak á vegum skógargeirans sem miðar að því að fá fólk til að koma saman í skóginum og gera sér glaðan dag. Ekki var annað að sjá en að það hefði tekist fullkomnlega að þessu sinni.

 

Jafnt ungir sem aldnir hafa gaman af því að grilla sykurpúða og snúrubrauð yfir opnum eldi. Mynd: Einar Jónsson

Boðið var upp á leiðsögn í tálgun og snéru sumir heim úr skóginum með handsmíðaða flautu í vasanum. Mynd: Einar Jónsson

Ein besta leiðin til að kynnast skóginum í Sandahlíð og umhverfi hans er að bregða sér í fróðlegan og skemmtilegan ratleik um hann. Mynd: Einar Jónsson

 

Gestir njóta veðurblíðunnar í Sandahlíð. Mynd: Jónatan Garðarsson

Grisjunarviður er til margra hluta nytsamlegur og fengu gestir að spreyta sig á að galdra fram ýmis hljóð úr viðarbútum sem féllu til í skóginum. Mynd: Heimir Sigurðsson

Líf og fjör í skógarrjóðri. Mynd: Einar Jónsson

 

Skógardagur í Sandahlíð

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar efnir til Skógardags í Sandahlíð laugardaginn 22. júní kl. 13-15. Í boði verður fjölbreytt dagskrá í faðmi skógarins þar sem allir í fjölskyldunni ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

  • Bakað verður yfir eldi (snúrubrauð og sykurpúðar)
  • Skógarslagverk
  • Tálgun
  • Ratleikur
  • Skógarganga o.fl.

Dagskráin er liður í Lífi í lundi, samstarfsverkefni ýmissa aðila í skógargeiranum sem gengur út á að bjóða fólki að gera sér glaðan dag í skógum víða um land.

Allir velkomnir!