Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

apríl 2013

Samið um umhirðu á skógræktarsvæðum

Með Fréttir

Samið um umhirðu á skógræktarsvæðum

22.03.2013

 

Samstarfssamningur Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar um samvinnu um ræktun og umhirðu á skógræktarsvæðum bæjarins var undirritaður á aðalfundi Skógræktarfélagsins 19. mars sl.

Í samningnum er kveðið á um að Skógræktarfélagið taki að sér tillögugerð um skipulag, hafi umsjón með og sjái um framkvæmdir við þau skógræktar- og útivistarsvæði sem eru skilgreind sem skógræktarsvæði í aðalskipulagi og eru utan Heiðmerkur. Svæðin eru: Smalaholt, Sandahlíð, Hnoðraholt, Tjarnholt, Hádegisholt og Leirdalur. Samtals eru þau 297 ha að stærð.

Verkefnaáætlanir til þriggja ára

Félagið skal gera rammaáætlanir til þriggja ára í samvinnu við umhverfis- og tæknisvið Garðabæjar um umsjón og umhirðu með svæðunum. Fram kemur að verkefnaáætlanir um gróðursetningar og aðrar framkvæmdir skuli unnar í samráði við umhverfisstjóra og lagðar fyrir umhverfisnefnd til umjföllunar.

Félagið ber einnig verkefnalega ábyrgð vegna atvinnuátakshópa og vegna vinnuhópa á vegum Vinnuskóla Garðabæjar sem vinna við afmörkuð verkefni samkvæmt framkvæmdaáætlun. Þá ber félaginu að kynna málefni sín og starfsemi með markvissri fræðslu.

Fær árlegan starfsstyrk

Garðabær veitir félaginu árlegan starfsstyrk samkvæmt samningnum. Á árunum 2013 og 2014 skal styrkurinn vera 2,5 milljónir með fyrirvara um samþykkt í fjárhagsáætlun

Samninginn undirrituðu þau Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélagsins. Um var að ræða endurnýjun samstarfssamnings sem gerður var fyrst árið 2008 í tilefni af 20 ára afmælis félagsins. Í ár er 25 ára afmæli Skógræktarfélags Garðabæjar.