Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2010

Haustferð 2010

Með Fréttir

Laugardaginn 11. sept. sl. var þrettánda haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar farin.  

Á fimmta tug félagsmanna tóku þátt í ferðinni og voru sex ræktunarreitir á Rangárvöllum og Flóa skoðaðir.

Fyrst voru Ingunn Óskarsdóttir og maður hennar heimsótt í gróðurreit þeirra í Flóanum. Þau hafa komið upp aldingarði í skjólleysinu á tæpum tveimur áratugum. Aðaláherslan síðustu árin hefur verið  á fjölbreyttar tegundir reynitrjáa. Þau buðu upp á að smakka af haustuppskeru garðsins. Ánægjulegt var að sjá hvað hægt er að rækta á berangri.

Auðkúla á Hellu var næsta stopp, þar tók á móti hópnum Gerður Jónasdóttir. Sýndi hún kúluhúsið sem hýsir íbúð hennar og stóran gróðurskála með fjölda framandi plöntuegunda sem voru mjög gróskumiklar. Einnig gekk hún með ferðalöngum um garðinn sem kom ótrúlega á óvart þarna við  þjóðveg 1, vegna fjölbreytts úrvals trjáa og runna. Garðurinn er sérstaklega vel hirtur með grasflötum og göngustígum. Um allan garðinn er séð fyrir áningar og hvíldarstöðum.

Næst var Sæmundur Guðmundsson heimsóttur eða Epla-Sæmundur eins og margir kalla hann, enda stendur hann vel undir því viðurnefni. Þarna var sannkallaður aldingarður með nær fullþroskuðum eplum svo að vart var hægt að trúa sínum eigin augum og það á Íslandi. Sæmundur býr yfir miklum fróðleik við ræktun fjölbreyttra yrkja af eplatrjám.

Nú var komið fram yfir hádegi, svo allir tóku vel á nestinu sínu þegar ferðalangarnir höfðu komið sér fyrir í bústað þeirra Ólafs og Guðrúnar í Vindási við Hróarslæk og í garðinum umhverfis bústaðnn. Þau hjón buðu félaginu til hádegisáningar sem þegin var með þökkum af skipuleggjendum ferðarinnar.

Gunnlaugsskógar við Gunnarsholt var næst vitjað undir leiðsögn Sigurðar Sigurkarlssonar. Hann sagði frá  tilurð og sögu skógarins. Upphaf skógarins er að Gunnlaugur Kristinsson landgræðslustjóri sáði birkifræi frá Skaftafelli þar árið 1939. Skógarreitur þessi er ekki auðfundinn, og því óvænt ánægja að fá tækifæri að ganga þarna um.

Við Gunnarsholt var einnig skoðuð Aspartilraun, þar sem mismunandi klónar stóðu hlið við hlið til samanburðar á vaxtarlagi og þroska.

Að lokum voru hjónin Sigurður og Svala heimsótt að Klauf í landi Skammbeinsstaða. Þar hafa þau stundað skógrækt í hálfan annan áratug. Gengið var um skógræktina sem er gríðar mikil og fræðst um ræktunarsöguna. Buðu þau upp á veitingar á verönd bústaðarins enda veðrið eins og best var á kosið og nutu menn góðgerðanna í blíðviðrinu og þökkuðu fyrir sig með góðum söng.

Myndir frá Haustferð 2010

{pgslideshow id=53|width=640|height=480|delay=3000|image=L}

 

 

 

Haustferð

Með Fréttir

Skógræktarfélagar!

Munið haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar

laugardaginn 11. september um Árnes- og Rangárvallasýslur.

Nánar auglýst síðar.