Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2019

Starfsskýrsla 2018-2019

Með Fréttir

Út er komin Starfsskýrsla 2018-2019 fyrir tímabilið frá september 2018 til ágúst 2019. Í henni er fjallað í máli og myndum um allt það markverðasta í starfi félagsins á tímabilinu svo sem Jólaskóg, Líf í lundi, grisjun og umhirðu skógræktarsvæðanna auk þess sem litið er til komandi verkefna.

 

Fróðleg haustferð

Með Fréttir

Tuttugu skógræktarfélagar tóku þátt í árlegri haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar um Suðvesturland laugardaginn 14. september í frekar rysjóttu veðri. Skoðaðir voru skógar bæði á Mógilsá í Kollafirði þar sem Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, tók á móti hópnum og Álfholtsskógur í Hvalfirði en þar tók Reynir Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Skilmannahrepps, á móti okkur. Báðir þessir skógar eru ákaflega fallegir og fjölbreyttir sem gaman er að heimsækja og njóta, svo ekki sé talað um að geta verið í logni þegar vindurinn blæs allt í kring.

Haustferðin var afskaplega ánægjuleg, fróðleg og nærandi þrátt fyrir að haustlægð væri með í för.

 

Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélagsins, hefur sáð fyrir og ræktað ófáar trjáplönturnar fyrir félagið í gegnum tíðina. Í ferðinni sýndi hún okkur inn í gróðurhús við Mógilsá þar sem félagar í Trjáræktarklúbbnum hafa aðstöðu til að ala upp plöntur.

 

 

Í haustferðum félagsins er gestgjöfum færðar plöntur sem oftar en ekki koma úr ræktun Barböru. Barbara afhendir Reyni Þorsteinssyni, formanni skógræktarfélags Skilmannahrepps, plöntur með þakklæti fyrir móttökurnar.

Hilmar Ingólfsson og Hugrún Jóhannesdóttir tóku höfðinglega á móti hópnum í sumarbústað þeirra hjóna í Svarfhólsskógi í Svínadal. Gróður er mjög fjölbreyttur og fallegur við bústaðinn.

Haustferð 2019 – Dagskrá

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 14. september um Suðvesturland
Félagið leggur til rútu til ferðarinnar en þátttakendur þurfa að hafa með sér hádegisnesti.

Dagskrá:
• Lagt verður af stað frá bílastæðinu bak við blokkirnar við Kirkjulund 12 og 14, kl. 9:00.
• Fyrsta stopp er við Mógilsá, fræðsla og leiðsögn um skóginn.
• Álfholtsskógur í Hvalfjarðasveit – leiðsögn um skóginn. Borðum hádegisnesti í skóginum þar sem Skógræktarfélag Skilmannahrepps býður upp á kaffi og kakó.
• Heimsókn til Hilmars og Hugrúnar í sumarbústaðaland þeirra í Svarfhólsskógi í Svínadal.
• Síðasta stopp verður í Brynjudal í Hvalfirði þar sem jólatrjáareitur Skógræktarfélags Garðabæjar verður heimsóttur.
• Heimkoma er áætluð um kl. 17.

Þeir, sem hyggjast taka þátt í þessari ferð, þurfa að tilkynna það sem fyrst og eigi síðar en fimmtudags-kvöldið 12. september til Kristrúnar Sigurðardóttur formanns, í síma 866-3164 eða á netfangið kristrun@islandia.is

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 14. september.