Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

ágúst 2013

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013 í Garðabæ

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt landsfund Skógræktarfélaga á landsvísu í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli daganna 23.-25. ágúst sl. Aðildarfélög innan Skógræktarfélags Íslands eru 60, dreifð um allt land. Um 170 fulltrúar og gestir sóttu fundinn í Garðabæ.

Dagskrá fundadagana var fjölbreytt alla dagana. Flutt voru ávörp í upphafi fundar þar sem m.a. Gunnar Einarsson bæjarstjóri flutti ávarp. Mörg fræðsluerindi voru á dagskrá m.a. um eldvarnir á skógræktarsvæðum, hugmyndir að skipulagi Úlfljótsvatns, jarðar í eigu Skógræktarfélags Íslands, um Græna trefilinn og skipulag skógræktar ofan höfuðborgarsvæðisins, um útivist og skógrækt við endurskoðun svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Sýnd var heimildarmynd um upphaf landgræðsluskóga á Íslandi sem hófst á Smalaholti í Garðabæ 10. maí 1990 þegar frú Vígdís Finnbogadóttir forseti gróðursetti fyrstu plöntuna að viðstöddu fjölmenni. Gísli Gestsson kvikmyndargerðarmaður vann myndina en í henni er m.a. viðtal við frú Vigdísi sem tekið var nýlega í skóginum í Smalaholti. Fundarstjórar voru Sigurður Þórðarson frá Sk.Garðabæjar og Valgerður Auðunsdóttir frá Sk. Árnesinga.

Báða dagana var farið í skoðunarferðir, föstudeginum var farið í skoðunarferð um Garðabæ þar sem gestum var boðið í hús Náttúrufræðistofnunar Íslands á Urriðaholti, í Grænagarð á Garðaholti þar sem Hólmfríður dóttir Sigurðar Þorkelssonar tók á móti skógræktarfólki og sagði frá ræktunarsögu fjölskyldunnar en harmonikuleikur Sigríðar Ólafsdóttur ómaði um skóginn. Endað var í Vífilsstaðahlíð þar sem tekið var á móti gestum með veitingum í boði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Við það tækifæri undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Þröstur Ólafsson formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur samstarfsamning milli Garðabæjar og félagsins um rekstur á Garðabæjarhluta Heiðmerkur.

Eftir hádegi á laugardeginum var gengið um skógræktarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar. Byrjað í Smalaholti þar sem ungur trjásýnireitur með merktum trjám og runnum var skoðaður. Við Furulund, áningarstað í Smalaholti gróðursetti frú Vigdís Finnbogadóttir 20 miljónustu landgræðsluskógarplöntuna, ask sem táknræna athöfn yfir landsverkefnið er hófst 1990 eins og áður kom fram. Því næst var gestum boðið í göngu um skóginn sem lauk í Sandahlíð með veitingum, lúðrablæstri og söng. Margir fulltrúar og aðrir gestir þáðu boð um leiðsögn um Hönnunarsafn Íslands á föstudag og í lok fundar á sunnudag. Hápunktur aðalfundarins var hátíðarkvöldverður þ.e. árshátíð skógræktarfélaganna. Þar mættu góðir gestir s.s. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Júlía Ingvarsdóttir formaður umhverfisnefndar ásamt mökum. Ráðherra flutti ávarp til skógræktarfólks. Anna María Björnsdóttir söng einsöng, einnig var gestum skemmt þar sem leikið var á sög við undirleik á píanó. Veislustjóri var Guðni Ágústsson sem skemmti fólki með óviðjafnanlegu gamanmáli.

Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands veitti viðurkenningar í þágu skógræktar þeim Barböru Stanzeit gjaldkera Skógræktarfélags Garðabæjar til áratuga, Erlu Bil Bjarnardóttur formanni félagsins s.l. 25 ár, Sigurði Björnssyni fyrrum ritara félagsins og Sigurði Þorkelssyni í Grænagarði.

Stjórn Skógræktarfélags Íslands var endurkjörin í lok fundarins. Formaður þakkaði Garðbæingum fyrir góðan undirbúning fundarins þar sem allt gekk snurðulaust.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar og fleiri sem unnu að undirbúningi og framkvæmd landsfundarins eiga heiður skilið fyrir góðan undirbúning og framkvæmd. Bestu þakkir til IKEA og Ölgerðarinnar sem styrktu félagið með vöruúttekt og láni á vörum.

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt aðalfund Skógræktarfélags Íslands 2013 í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá stofnun félagsins.

Haustferð

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar laugardaginn 7. september 2013

 

 

Haustferðin er fyrir félagsmenn og er um að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til. Að þessu sinni skoðum við fjölbreytta ræktun á Stór Reykjavíkursvæðinu allt frá salati að perum.

 

 

Takið daginn frá og skráið ykkur í ferðina til formanns á netfangið bil@internet.is eða síma 8208588.

Mæting við Tónlistaskólann við Kirkjulund kl.9:00

 

 

Stjórnin

Gönguleiðarkort

Með Fréttir

Gönguleiðakort um skógræktarsvæðin í Garðabæ

 

Nýlega gaf Skógræktarfélag Garðabæjar út kort í handhægu vasabroti með upplýsingum um gönguleiðir og annan fróðleik um útivistarsvæðin ofan byggðar í Garðabæ.

Í nágrenni við friðland Vífilsstaðavatns, á hæðunum í Smalaholti og Sandahlíð, sjást nú myndarlegir skógarlundir sem skógræktarfélagið hefur ræktað og byggt upp á undanförnum 25 árum. Margir nýta sér svæðin til útivistar og afþreyingar. Félagið hefur látið skipuleggja göngustíga og áningastaði á þessum svæðum og hlykkjast stígakerfið þar um alveg efst upp á hæðir þaðan sem víðsýnt er. Stígagerðin hófst sumarið 2009 þegar félagið tók þátt í samstarfi um atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og Garðabæjar um verkefni á skógræktarsvæðunum og margir ungir Garðbæingar tóku þátt í.

 

Kortið nær yfir næsta nágrenni Vífilsstaðavatns en á annarri hlið þess eru sérkort yfir gönguleiðir, áningastaði o.fl. í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð. Sagt er frá skógræktarsvæðum í umsjón Skógræktarfélags Garðabæjar og öðrum áhugaverðum skógarreitum og svæðum í bæjarlandinu. Einnig er sagt frá upphafi skógræktar í Garðabæ sem má rekja til skógardaga á Vífilsstöðum vorið 1911

 

Gönguleiðakortið var unnið af Árna Tryggvasyni skiltahönnuði og ljósmyndara í samráði við stjórn félagsins. Útgáfa kortsins er styrkt af Bæjarsjóði Garðabæjar. Hægt er að nálgast kortið í þjónustuveri Garðabæjar að Garðatorgi 7 og fljótlega verða settir upp kassar við inngang að skógræktarsvæðunum í Sandahlíð og Smalaholti. Skógræktarfélag Garðabæjar er opið öllum áhugasömum um trjá- og skógrækt (www.skoggb.is).