Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

nóvember 2011

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2011

Með Fréttir

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2011

 

Ágætu félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar og Lionsklúbbnum Eik.

Laugardaginn 17. desember verður opinn jólaskógur í Smalaholti milli kl. 13:00 og 16:00. Skógræktarfélag Garðabæjar og Lionsklúbburinn Eik  vinna saman að því að opna skóginn fyrir fjölskyldur bæjarins til að velja sér jólatré. Aðallega er um að ræða stafafuru og stöku greni og eingöngu má saga þau tré sem merkt hafa verið sérstaklega með plastborðum. Eitt verð, kr. 5000, er á öllum trjám og trén eru pökkuð í net eftir óskum. Aðeins staðgreiðsla er í boði. Ef sög er til á heimilinu er ágætt að hafa hana með.

Ráðlegt er að mæta vel klæddur en auk þess verður boðið upp á heitt kakó, kaffi og piparkökur í skóginum.

Aðkoma að skógræktarsvæðinu í Smalaholti er við bílastæðið af Elliðavatnsvegi, norðan við Vífilsstaðavatn. Flaggað verður á staðnum.

Gerum okkur glaðan dag í skóginum í Smalaholti.

Með jólakveðju,

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar og  Lionsklúbburinn Eikar

 

Haustferð 2011

Með Fréttir

Haustferð 2011

 

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var farin laugardaginn 17. september í blíðskapar veðri.

Haldið var austur í Fljótshlíð að Deild þar sem Sveinn Þorgrímsson og kona hans voru heimsótt . Þar var gengið um gróskumiklar hlíðar með ótrúlegum fjölbreytileika trjáplantna. Eftir um tveggja tíma göngu um skóginn var haldið að Heylæk I þar sem Sigurður Haraldsson ræður ríkjum. Þar var borðað hádegisnesti í fjósinu sem nú gegnir hlutverki minjasafns en Sigurður hefur sett upp ótrúlega skemmtilegt safn með fjölbreyttu úrvali af munum sem hann hefur safnað í gegnum árin. Þarna voru bílar, dráttavélar, mjaltarvél frá því um 1910 auk fjölda annarra muna. Síðan var gengið um skóginn þar sem aspir eru í skólbeltum og viðkvæmari tegundir þar fyrir innan. Vöxtur trjánna er ótrúlegur en ræktunin hófst 1992.

Að lokum var farið í sumarbústað Jóhannesar og Guðrúnar skammt frá Hvolsvelli en bústaðurinn er inni í skógræktargirðingu sem Skógræktarfélg Rangæinga á. Þar var tekið á móti ferðalöngum með glæsilegum kaffiveitinum úti á hlaði í haustblíðunni. Áður en haldið var heim á leið var gengið um ræktunarsvæði þeirra hjóna.