Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

ágúst 2011

Haustferð 2011

Með Fréttir

 

Haustferð 17. september 2011

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar fyrir félagsmenn verður farin laugardaginn 17. september n.k. Að þessu sinni verður farið í Rangárvallasýslu og skoðaðir nokkrir áhugaverðir staðir. Um er að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til. Nánar auglýst síðar.

Sjá myndir og meiri upplýsingar um fyrri ferðir hér á heimasíðunni.

Vígsla á Trjásýnistíg

Með Fréttir

Trjásýnistígur í Smalaholti vígður

Nýr útivistarstígur var opnaður formlega í Smalaholti þriðjudaginn 9. ágúst s.l. hann er að hluta trjásýnistígur. Fjöldi manns mætti við opnunina í sumarblíðunni þar sem bæjarstjóri Garðabæjar Gunnar Einarsson og Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands klipptu á borða í tilefni af opnuninni. Gengið var um stíginn og að göngu lokinni þáðu gestir veitingar og nutu veðurblíðunnar undir hljóðfæraleik Emils Friðfinnssonar. Stígurinn er hluti af útivistarstígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar fékk skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af skógræktarhópum frá Garðabæ. Framkvæmdin er hluti verkefna sem unnin eru samkvæmt samstarfssamningi Skógræktarfélagsins, Garðabæjar og Skógræktarfélags Íslands.

Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er norðan Vífilsstaðavatns og er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Í Smalaholti hefur myndast skjólgóður skógur með fjölbreyttum gróðri sem auðvelt er að njóta með tilkomu göngustíga.

Opnun stíga og trjásýnistígs

Með Fréttir

Nýr trjásýnistígur í Smalaholti verður opnaður formlega þriðjudaginn 9. ágúst n.k. kl. 17:00. Stígurinn er hluti af stígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar hefur skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af atvinnuátaki og skógræktarhópum. Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Sjá nánari upplýsingar um svæðið á https://www.skoggb.is/index.php/svaedin/smalaholt

Boðið er til göngu og fagnaðar þriðjudaginn 9. ágúst kl. 17:00 og eru allir sem hafa áhuga velkomnir. Mæting á aðalplani í Smalaholti við Elliðavatnsveg norðan Vífilsstaðavatns.

Skógarganga

Með Fréttir

Skógarganga Skógræktarfélagsins

Siðastliðið þriðjudagskvöld 12. júlí stóð Skógræktarfélagið fyrir göngu með leiðsögn Arndísar Árnadóttur list- og sagnfræðings með gróður- og byggingasögulegu ívafi um Vífilsstaði og nágrenni. Inn í þetta fléttaði svo Erla Bil garðyrkjustjóri af alkunnum skörungsskap ýmsum fróðleik um gróður, fólk og kartöflurækt á Vífilsstöðum. Gengið var um trjálundina á staðnum, gróðurinn skoðaður með vísun í upphaf trjáræktar á reitnum norðan við Vífilsstaðahælið fyrir nær hundrað árum. Ennfremur var vitjað um stæði gamla bæjarins á Vífilsstöðum niður við lækinn og spáð í gildi fornminja. Síðan var gengið um stóru trjásveigana á túninu sunnan við hælið sem gróðursettir voru fyrir hartnær fimmtíu árum. Þeir veittu sannarlega skjól fyrir sunnanvindinum þetta ánægjulega kvöld í  stórum hópi gróðurvina og áhugafólks um verndun Vífilsstaða sem höfuðbóls í Garðabæ. Þrátt fyrir nýslegin túnin mátti skynja hin yfirgefnu hús eitt af öðru. Þessi stórkostlegi staður er vannýtt auðlind Garðabæjar sem ekki má gleymast frekar en handritin og annar menningararfur.