Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2012

Sigríður Gísladóttir minning

Með Fréttir

Minningarorð um Sigríði Gísladóttur frá Hofsstöðum í Garðabæ

sem lést 6. janúar 2012, jarðsett þann 18. janúar 2012

 

 

Frá Skógræktarfélagi Garðabæjar          

 

Við minnumst kærs félaga, Sigríðar á Hofsstöðum. Hún var í undirbúningshóp og stofnfélagi Skógræktarfélags Garðabæjar árið 1988. Sigríður var gerð að fyrsta heiðursfélaga á aðalfundi félagsins 18. apríl 1999. Ekki vildi Sigga sitja í stjórn er stungið var uppá því við stofnun félagsins, heldur vildi vera virkur félagi í skógræktarstarfinu. Það hefur hún svo sannarlega verið alla tíð síðan þar til sjónin fór að svíkja hana fyrir nokkrum árum og erfitt var að ganga um í skógræktinni. Alla tíð hefur Sigga fylgst með og hvatt til dáða. Því vorum við félagar hennar í Skógræktarfélaginu glöð er hún ásamt systur sinni og dóttur mætti í sumar upp í Smalaholt við formlega opnun nýrra útivistarstíga og trjásýnireits. Smalaholtið er okkur skógræktarfólki sérlega kært því það er fyrsta svæði félagsins. Sigga hafði gaman að taka þátt í ferðum félagsins s.s. uppí Brynjudal þar sem félagið ræktar jólatrjáaskóg, austur að Gaddstöðum í Aldamótaskóga Skógræktarfélaganna, einnig við gróðursetningar í Garðakirkjugarði að ógleymdum haustferðum félagsins. Eitt sinn bauð hún stolt skógræktarfélögum til dóttur sinnar og tengdasonar að skoða ræktun þeirra að Espiflöt í Bláskógarbyggð „hvílíkt blómahaf“. Skógræktarfélagið varðveitir minningar um Siggu við ýmis skógræktar- og félagsstörf þar sem hún var jafnan kát er sest var í kaffipásum og spjallað. Hún var útivistarkona sem átti mörg áhugamál, henni var annt um heimabyggð sína og miðlaði fróðleik til okkar hinna um fyrri tíð og örnefni í Garðabæ.

 

Skógræktarfélagar minnast heiðursfélaga síns, sem ljúfrar og elskulegrar konu.

 

Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda hennar.

 

Skógræktarfélag Garðbæjar