Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

desember 2023

Garðbæingar flykktust í Jólaskóginn

Með Fréttir

Fjöldi fólks kom í jólaskóginn í Smalaholti á laugardaginn enda er sterk hefð fyrir því í mörgum fjölskyldum að fara í jólaskóginn og finna draumatréð fyrir heimilið. Gestir urðu ekki fyrir vonbrigðum að þessu sinni heldur snéru glaðir í bragði og rjóðir í kinnum úr skóginum með fenginn í eftirdragi. Þá var gott að þiggja heitt súkkulaði og eitthvað sætt að maula á meðan trénu var rennt í gegnum tromluna. Tæplega 80 tré seldust að þessu sinni og rennur allur ágóði til Skógræktarfélags Garðabæjar. Það munar um minna fyrir  félagið sem ber hitann og þungann af ræktun og umhirðu í Smalaholti og víðar í bæjarlandinu. Skógræktarfélag Garðabæjar þakkar bæjarbúum kærlega fyrir komuna og stuðninginn og hlakkar til að taka á móti þeim að ári.

Helga Thors, stjórnarmaður í félaginu, fangaði stemninguna á myndir.

Fjölbreytt starf á árinu

Með Fréttir

Það er óhætt að segja að starfsemi Skógræktarfélags Garðabæjar hafi verið með blómlegasta móti á árinu samkvæmt nýútkominni starfsskýrslu félagsins. Meðal annars stóð félagið fyrir haustferð, vinnukvöldum, bauð grunnskólanemum að gróðursetja Yrkjuplöntur og sinnti umhirðu og uppbyggingu útivistarskóganna vinsælu í Smalaholti og Sandahlíð.

Hér má nálgast starfsskýrsluna:

Ársskýrsla Skógræktarfélags Garðabæjar 2023.

Jólaskógur í Smalaholti

Með Fréttir

Jólaskógur í Smalaholti

laugardaginn 9. desember kl. 11:30–15:00.

 

Fjölskyldan velur sér tré í skóginum og fellir sjálf.

Fallegar furur og greni.

Sama verð á öllum jólatrjám óháð stærð,

Kr. 8.000

 

Aðkoma að skóginum í Smalaholti er

frá Elliðavatnsvegi norðan við Vífilsstaðavatn.