Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Áformum í Smalaholti mótmælt harðlega

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar mótmælir skipulagstillögu

þar sem 15 hektarar af útivistarskógi í Smalaholti eru teknir undir golfvöll

 

Miðvikudaginn 11. desember 2019 var haldin fjölmenn kynning í Sveinatungu í Garðabæ á rammahluta aðalskipulags Vífilsstaðalands. Um var að ræða íbúakynningu á forkynningarstigi þar sem Jóhanna Helgdóttir hjá Eflu kynnti skipulagstillögu sem byggð er á grunni vinningstillögu úr hugmyndasamkeppni um skipulag Vífilsstaðalands 2017. Samkvæmt vinningstillögunni var skógræktinni í Smalaholti að mestu hlíft fyrir ásókn golfvallarins en það sama er ekki hægt að segja um núverandi tillögu. Kynninguna má sjá í heild sinni á eftirfarandi slóð: https://www.gardabaer.is/media/skipulagsmal/2424-093-KYN-001-V01-Ibuakynning-20191211.pdf.

Formaður Skógræktarfélags Garðabæjar Kristrún Sigurðardóttir mótmælti á fundinum fyrir hönd félagsins framkominni skipulagstillögu enda verið að skipuleggja golfvöll inn í allt að 30 ára gróskumikinn útivistarskóg. Tillagan er algjör tímaskekkja þar sem skógar gegna mikilvægu hlutverki í loftlagsmálum svo ekki sé talað um 30 ára gamlan skóg sem er mun afkastameiri við að vinna koltvísýring úr andrúmsloftinu en yngri skógar. Allir þurfa að leggjast á eitt til að vinna gegn loflagsvánni og eru yfirvöld í  Garðabær ekkert undanskilin í þeim efnum.

Hér fyrir neðan er kort af núverandi golfvelli og hluta af skóginum í Smalaholti. Lega fyrirhugaðs golfvallar hefur verið merkt með gulu en fjólubláu strikin sýna helstu útivistarstíga í Smalaholti:

Yfirlýsing Skógræktarfélagsins í heild sinni er hér fyrir neðan:

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar mótmælir harðlega tillögunni sem kynnt var hér áðan er varðar stækkun golfvallarins inn í skóginn í Smalaholti.

Svo virðist sem fæstir golfarar, skógræktarmenn og jafnvel bæjaryfirvöld svo ekki sé talað um almenning átti sig á hversu stór hluti af skóginum í Smalaholti, samkvæmt skipulaginu, mun fara undir golfvöll. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að 15 ha af útivistarskógi í Smalaholti verði teknir undir golfvöll sem er um 1/3 af skóginum í Smalaholti. Til að við áttum okkur  betur á hversu stórt svæði 15 ha er þá samsvarar það Byggðum í Garðabæ þ.e. Hlíðarbyggð, Brekkubyggð, Dalsbyggð og Hæðarbyggð.

Þá hljómar undarlega í eyrum okkar skógræktarmanna ummæli í Morgunblaðinu 30. nóvember s.l. í frétt sem heitir „Spennandi svæði í Vetrarmýri“ en þar segir í lok fréttar: „breyta á legu golfvallarins í átt að skógræktinni“ Ekkert er talað um að farið verði yfir 15 ha af skógi og hann eyðilagður. Og í Garðapóstinum 5. desember segir orðrétt í frétt frá GKG sem heitir „Spennandi tímar hjá GKG“: „Í fyllingu tímans verður byggður nýr 9 holu völlur sem mun teygja sig niður að Vífilsstðavatni“ Í hvorugu tilfellinu er minnst á að golfvöllurinn fari yfir 15 hektara skóg sem er allt að 30 ára gamall. Ræktaður af íbúum Garðabæjar sem hafa lagt metnað í að bæta umhverfið öllum til heilla. Einnig segir í fréttinni: „Þegar hann verður tilbúinn mun Mýrin leggjast af sem golfvöllur“. Þarna mætti bæta við: og einnig 15 hektara skógur í Smalaholti.

Plöntun í Smalaholti hófst 1989 þar sem nemendur skólanna lögðu hönd á plóg svo og fjöldi bæjarbúa. Í dag er því allt að 30 ára gamall skógur í Smalaholti sem gegnir mikilvægu hlutverki sem útivistarskógur en stígar sem eru um einn og hálfur kílómetri á lengd liggja um svæðið sem fyrirhugað er að taka undir golfvöll auk margra áningastaða. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í Garðabæ sem veitir bæjarbúum og öðrum gestum mikla ánægju árið um kring.

í loftlagsmálum gegnir skógurinn ekki síður mikilvægu hlutverki en eins og öllum ætti að vera kunnugt er skógrækt ein af mótvægisaðgerðum í loftlagsmálum. Því stærri sem trén eru því meira gagn gera þau. Á svæðinu sem lagt er til að fari undir golfvöll er þéttur gróskumikill skógur þar sem trén eru allt að 10 m há. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og flestir keppast við að vinna gegn loflagsvánni þá leggja yfirvöld í Garðabæ til að 15 hektarar af gróskumiklum skógi verði útrýmt.

Vonandi ber bæjaryfirvöldum gæfa til að snúa frá þessari fráleitu skipulagstillögu sem kynnt var hér áðan, þar sem gróskumiklum útivistarskógi á 15 hekturum af landi, öllum landsmönnum og umhverfinu til heilla verði skipt út fyrir golfvöll.

 

Kristrún Sigurðardóttir,

formaður Skógræktarfélags Garðabæjar

Jólastemning í Smalaholti

Með Fréttir

Jólaskógur var haldinn í Smalaholti á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar laugardaginn 14. desember. Fjölskyldur lögðu leið sína í skóginn til að velja sér jólatré og nutu útiveru í leiðinni, er þær röltu um skóginn í leit að hinu eina sanna jólatré. Boðið var upp á heitt kakó og piparkökur í skógarrjóðri við opinn eld. Mjög jólalegt og fallegt var í Smalaholtinu og mikil ánægja og gleði skein úr hverju andliti þrátt fyrir að svalt væri í veðri.

Fólk hjálpast að við að pakka tré í net. Þegar rétta tréð var fundið gat fólk ornað sér við opin eld og gætt sér á heitu súkkulaði og piparkökum.

Móðir og barn alsæl með nýfundið jólatré.

Jólaskógur í Smalaholti

Með Fréttir

Jólaskógur verður í Smalaholti laugardaginn 14. desember kl. 12:00 –16:00.

Aðkoma að svæðinu er frá Elliðavatnsvegi norðan við Vífilsstaðavatn.

 

Fjölskyldan velur sér tré í skóginum og fellir sjálf.

Fallegar furur og greni. Sama verð á öllum jólatrjám óháð stærð kr. 7.000.-

 

Boðið verður upp á kakó og piparkökur.

Kynningarfundi frestað

Með Fréttir

Vegna afleitrar veðurspár þá hefur verið ákveðið að fresta almennum kynningarfundi um skiplulag Vífilsstaðalands sem halda átti á morgun þriðjudaginn 10.desember klukkan 17.00 til miðvikudagsins 11.desember klukkan 17.00.

Smalaholt í hættu

Með Fréttir

30 ára útivistarskógur í Smalaholti í hættu

– Bæjaryfirvöld áforma að taka um 15 hektara af skóginum undir golfvöll

 

Í Smalaholti er allt að 30 ára fjölsóttur útivistarskógur

þar sem lögð hefur verið mikil vinna í gerð stíga og ýmsa aðstöðu.

Skógurinn gegnir jafnframt mikilvægu hlutverki við kolefnisbindingu

sem mun aukast í framtíðinni ef skógurinn fær að dafna.

 

Ertu sátt/ur við að um 15 hektarar af útivistarskógi í Smalaholti verði teknir undir golfvöll?

 

Kynntu þér málið á kynningarfundi bæjaryfirvalda 10. desember í Sveinatungu á Garðatorgi 7, kl 17.

 

Þú gætir haft áhrif á framtíðarskipulag í Smalaholti.

 

Enn er von um að hægt verði að bjarga skóginum fyrir okkur öll og umhverfið!

 

Ítalskir skógar í máli og myndum

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar býður til myndakvölds í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund í Garðabæ mánudaginn 25. nóvember 2019 kl. 20.

Erla Bil Bjarnardóttir og Ragnhildur Freysteinsdóttir Skógræktarfélagi Garðabæjar flytja ferðasögu í máli og myndum frá skógræktar- og menningarferð skógræktarfélaga um Ítölsku Alpana í Suður Tyról í haust.

Allir eru velkomnir á myndakvöldið.

Kaffiveitingar í boði Skógræktarfélagsins.

Stjórnin

Í ítölsku ölpunum eru fallegir skógar.

Tónvísir trjáræktendur

Með Fréttir

Sinfóníuhljómsveit Íslands lauk starfsári sínu í sumar með því að taka þátt í samstarfsverkefni við Tónverkamiðstöðina. Verkefnið gengur út á að styðja við og hlúa að yngstu tónskáldum landsins og svo skemmtilega vill til að það nefnist Yrkja, rétt eins og verkefni Skógræktarfélags Íslands sem gengur út á að fá skólabörn til að gróðursetja tré. Það var því vel við hæfi að enda daginn á því að yrkja jörðina með gróðursetningu á trjám í Smalaholti, ræktunarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar.

Hljóðfæraleikarar, starfsfólk og fjölskyldur þeirra fjölmenntu í fyrsta skipti í Smalaholt, nánar tiltekið í landnemareit sem Sinfóníuhljómsveitin hefur nú tekið að sér. Hildigunnur Halldórsdóttir, ritari Skógræktarfélags Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri félagsins, leiðbeindu fólki um gróðursetninguna og sérvöldu trjáplöntur sem henta í lúpínubreiður. Báðar tengjast þær einnig Sinfóníuhljómsveitinni, Hildigunnur sem fiðluleikari og Barbara sem fastagestur á tónleikum sveitarinnar til margra ára.

Gróðursetningin var liður í því að jafna kolefnisspor hljómsveitarinnar eftir velheppnaða tónleikaferð hennar til Japans. Hljómsveitin lék þar á 12 tónleikum í öllum helstu borgum landsins. Með í för var Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og japanski píanistinn Nobuyuki Tsujii. Samtals lék hljómsveitin fyrir um 25.000 tónleikagesti við frábærar undirtektir.

Framundan eru fleiri tónleikaferðir erlendis og verður gróðursetning héðan í frá fastur liður í félagsstarfi hljómsveitarinnar, ekki síst ánægjunnar vegna.

 

 

Ungir sem aldnir tóku þátt í gróðursetningardeginum í Smalaholti. Lucia Koczot, Oktavía Gunnarsdóttir og Gunnar Andreas Kristinsson hjálpast að við gróðursetningu. Mynd: Steef van Oosterhout.

Hildigunnur Halldórsdóttir, Barbara Stanzeit, Guðný Guðmundsdóttir, Rósa Hrund Guðmundsdóttir og Júlíana Elín Kjartansdóttir. Mynd: Steef van Oosterhout.

Vigdís Másdóttir og Jóel sonur hennar með myndarlega lúpínubreiðu í bakgrunni. Mynd: Steef van Oosterhout.

Gróðursett var í lúpínubreiður og því mikilvægt að velja stórar og þróttmiklar plöntur sem ekki yrðu undir í samkeppninni. Mynd: Steef van Oosterhout.

Nauðsynlegt reyndist að reita vel frá áður en plöntunum var stungið niður. Mynd: Steef van Oosterhout.

Starfsskýrsla 2018-2019

Með Fréttir

Út er komin Starfsskýrsla 2018-2019 fyrir tímabilið frá september 2018 til ágúst 2019. Í henni er fjallað í máli og myndum um allt það markverðasta í starfi félagsins á tímabilinu svo sem Jólaskóg, Líf í lundi, grisjun og umhirðu skógræktarsvæðanna auk þess sem litið er til komandi verkefna.

 

Fróðleg haustferð

Með Fréttir

Tuttugu skógræktarfélagar tóku þátt í árlegri haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar um Suðvesturland laugardaginn 14. september í frekar rysjóttu veðri. Skoðaðir voru skógar bæði á Mógilsá í Kollafirði þar sem Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, tók á móti hópnum og Álfholtsskógur í Hvalfirði en þar tók Reynir Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Skilmannahrepps, á móti okkur. Báðir þessir skógar eru ákaflega fallegir og fjölbreyttir sem gaman er að heimsækja og njóta, svo ekki sé talað um að geta verið í logni þegar vindurinn blæs allt í kring.

Haustferðin var afskaplega ánægjuleg, fróðleg og nærandi þrátt fyrir að haustlægð væri með í för.

 

Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélagsins, hefur sáð fyrir og ræktað ófáar trjáplönturnar fyrir félagið í gegnum tíðina. Í ferðinni sýndi hún okkur inn í gróðurhús við Mógilsá þar sem félagar í Trjáræktarklúbbnum hafa aðstöðu til að ala upp plöntur.

 

 

Í haustferðum félagsins er gestgjöfum færðar plöntur sem oftar en ekki koma úr ræktun Barböru. Barbara afhendir Reyni Þorsteinssyni, formanni skógræktarfélags Skilmannahrepps, plöntur með þakklæti fyrir móttökurnar.

Hilmar Ingólfsson og Hugrún Jóhannesdóttir tóku höfðinglega á móti hópnum í sumarbústað þeirra hjóna í Svarfhólsskógi í Svínadal. Gróður er mjög fjölbreyttur og fallegur við bústaðinn.

Haustferð 2019 – Dagskrá

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 14. september um Suðvesturland
Félagið leggur til rútu til ferðarinnar en þátttakendur þurfa að hafa með sér hádegisnesti.

Dagskrá:
• Lagt verður af stað frá bílastæðinu bak við blokkirnar við Kirkjulund 12 og 14, kl. 9:00.
• Fyrsta stopp er við Mógilsá, fræðsla og leiðsögn um skóginn.
• Álfholtsskógur í Hvalfjarðasveit – leiðsögn um skóginn. Borðum hádegisnesti í skóginum þar sem Skógræktarfélag Skilmannahrepps býður upp á kaffi og kakó.
• Heimsókn til Hilmars og Hugrúnar í sumarbústaðaland þeirra í Svarfhólsskógi í Svínadal.
• Síðasta stopp verður í Brynjudal í Hvalfirði þar sem jólatrjáareitur Skógræktarfélags Garðabæjar verður heimsóttur.
• Heimkoma er áætluð um kl. 17.

Þeir, sem hyggjast taka þátt í þessari ferð, þurfa að tilkynna það sem fyrst og eigi síðar en fimmtudags-kvöldið 12. september til Kristrúnar Sigurðardóttur formanns, í síma 866-3164 eða á netfangið kristrun@islandia.is

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farin laugardaginn 14. september.