Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Brynjudalur

Með Fréttir

Skógræktarfélögunum á Suðverstur horni landsins bauðst árið xxxx að fá spildur til ræktunnar jólatrjáa frá Landgræðslusjóði. Skógræktarfélag Garðabæjar tók strax við þessum möguleika að koma upp ræktun sígrænna trjáa með aðaláherslu og möguleika á jólatrjáaskógi. Því holtin ofan Garðabæjar sýndust  ekki sérlega hentug til þeirrar ræktunar. Gróðursetningarferðir í Brynjudalinn hafa verið árlegar í byrjun júní síðan félagið fékk umsjón með reitnum sem er um 1 ha. Þetta hafa verið vel sóttar ferðir félagsmanna sem notið hafa fegurðar og kyrrðar Brynjudalsins. Greniskógurinn hefur staðist væntingar og vex ört í stærð jólatrjáa.

 

 

simon_brynjudal_15juni_2009

Tjarnholt

Með Fréttir

Um 46 ha að stærð, í landi Urriðavatnslands. Félagið fékk umsjón með svæðinu til skógræktar 1994. Vegslóði var ruddur og grjóthreinsaður í samstarfi við landeigendur til aðfanga, en ekki var borið í hann svo hann hefur gróið upp. Gróðursetningar fóru fram að mestu af atvinnuátaki ungs fólks á vegum Garðabæjar. Svæðið er öllum opið en ekki nægilega aðgengilegt almenningi, enda engir stígar á svæðinu. Áburðargjöf á trjáplöntur og önnur umhirða. Aðkoma frá Hlíðarvegi í Heiðmörk, þar er grænt landgræðsluskógaskilti við aðkomu við línuveg inn af Heiðmerkurvegi. Svæðið er samt mjög skemmtilegt til skoðunar í námunda við Selgjá og austan í Syðsta Tjarnholti stendur Markasteinn milli jarðanna Urriðakots og Setbergs. Þaðan er víðsýnt austur yfir Smyrlabúðarhrauns sem er hluti Búrfellshrauns.

 

 

tjarnholt

Lög félagsins

Með Fréttir

SKÓGRÆKTARFÉLAG GARÐABÆJAR

 

Lög félagsins samþykkt á aðalfundi 1999

 

1. grein.

Félagið heitir Skógræktarfélag Garðabæjar. Félagið er aðili að Skógræktarfélagi Íslands sem héraðsskógræktarfélag. Heimili félagsins og varnarþing er í Garðabæ.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

 

 

2. grein.

Markmið félagsins er að vinna að framgangi skógræktar og trjáræktar í Garðabæ og  landgræðslu og stuðla að góðri umgengni á útivistarsvæðum í bænum með því að:

2.1       Efla áhuga bæjarbúa á trjárækt, landgræðslu og gróðurvernd.

2.2       Veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt, trjárækt, gróðurvernd og landgræðslu.

2.3       Hvetja einstaklinga og félög til að gróðursetja tré og runna við heimili sín, fyrirtæki og stofnanir og til að stuðla að hverskonar umhverfisbótum.

2.4       Vinna að verndun þeirra skógarreita, sem fyrir eru í bæjarlandinu og koma upp nýjum í samvinnu og samráði við bæjaryfirvöld, landeigendur og annað áhugafólk.

 

 

3. grein.

Félagið hefur  samvinnu við Skógrækt ríkisins um framkvæmdir og öflun fræs og trjáplantna.

Félagið aflar fjár til starfsemi sinnar með félagsgjöldum og með því að leita fjárhagslegs stuðnings frá bæjaryfirvöldum, stofnunum, félögum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Félagið aflar sér ræktunarlanda svo sem kostur er. Það úthlutar skikum til félaga, skóla og einstaklinga í Garðabæ til skógræktar í þeim löndum, sem það fær til umráða.

 

 

4. grein.

Félagar geta þeir orðið, sem hafa áhuga á markmiðum félagsins og uppfylla eitt eftirfarandi skilyrða:

4.1       Greiða félagsgjöld, sem aðalfundur ákveður.

4.2       Gerast ævifélagar með því að greiða tvítugfalt félagsgjald í eitt skipti fyrir öll.

4.3       Er félag eða stofnun, sem greiða minnnst fimmfalt félagsgjald.

4.4 Er heiðursfélagi kjörinn á aðalfundi samkvæmt tillögum stjórnar félagsins.

 

 

5. grein.

Stjórn félagsins skipa 7 menn. Aðalfundur kýs formann félagsins og 6 meðstjórnendur og 6 menn í varastjórn að auki. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund, kýs sér varaformann, ritara og féhirði. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og ganga þeir úr stjórn til skiptis 3 meðstjórnendur og 3 varamenn hvort ár. Aðalfundur kýs ennfremur einn skoðunarmann og einn til vara til tveggja ára. Nú er varamaður kjörinn í aðalstjórn á miðju kjörtímabili hans og skal þá kjósa varamann í hans stað á þeim sama fundi til loka kjörtímabilsins.

 

6. grein.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 30. apríl ár hvert, og boða með fundarboði eða auglýsingu með minnst viku fyrirvara. Aukafundi má halda þess á milli, ef stjórninni þykir ástæða til, eða ef minnst tíu félagar æskja þess.  Stjórnin ákveður fundarstað og stund og boðar fund með dagskrá.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

 

6.1       Skýrsla um starfsemi félagsins undanfarið starfsár.

6.2       Endurskoðaðir reikningar félagsins.

6.3       Ákvörðun á félagsgjaldi.

6.4       Kosning samkvæmt félagslögum.

6.5       Önnur mál.

 

Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

 

 

7. grein.

Stjórnin annast rekstur félagsins og tekur ákvarðanir fyrir þess hönd milli aðalfunda. Hún skipuleggur framkvæmdir og hefur eftirlit með eignum félagsins, semur tillögur um framtíðarstarf þess og sækir um styrki til framkvæmda.

 

 

8. grein.

Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf tvo þriðju hluta atkvæðisbærra fundarmanna til. Atkvæðisbærir eru þeir, sem skráðir eru í félagaskrá. Verði félagið lagt niður skal stjórn þess afhenda bæjarsjóði Garðabæjar lönd þess og eigur.

 

 

Svæðin

Með Fréttir

Svæðin eru hér kynnt nánar. Þetta eru umsjónarsvæði skógræktarfélagsins og jólatrjáa reiturinn í Brynjudal.

Svæðin hafa uppá margbreytileika að bjóða til útivistar s.s. útivistarstíga, útibekkjum og borðum, grillaðstöðu, leiktækjum, fræðsluskiltum o.fl.

Hnoðraholt

Með Fréttir

Hnoðraholt

Um 11 ha að stærð, úr landi Vífilsstaða. Skógræktarsvæðið er austan og uppaf byggðinni í Hnoðraholti, að norðan hefur nýbyggingarhverfi risið í Kópavogi. Svæðið var í upphafi skilgreint með samningi fyrir Yrkjugróðursetningar grunnskólanema, milli skógræktarfélagsins og bæjarins árið 1991. Sigríður Brynjólfsdóttir nemi í landlagsarkitektúr gerði skógræktarskipulag af svæðinu. Grunnskólanemendur frá skólum bæjarins hafa gróðursett á holtinu í nær tvo áratugi. Hugmyndir að nýrri byggð með rammaskipulagstillögum eru í vinnslu hjá Garðabæ, gerir svæðið óaðlaðandi fyrir skólastarfið. Gegnum svæðið liggur reiðstígur frá hesthúsasvæði Gusts í Kópavogi norðaustur um holtið. Ekki hafa verðið lagðir útivistarstígar á svæðinu. Athyglisverðar söguminjar á Hnoðraholti eru Hnoðri á mörkum jarðanna Vífilsstaða og Fífuhvamms. Einnig er á holtinu minjar frá heimstyrjöldinni, skotbyrgi.

 

 

picture2006_056

Sandahlíð

Með Fréttir

Sandahlíð

Um 46 ha að stærð úr landi Vífilsstaða. Staðsetning austan við Vífilsstaðavatn og liggur sunnan við Kjóavelli. Aðkoma er frá Elliðavatnsvegi og þar er grænt landgræðsluskógaskilti. Skógræktarskipulag af Sandahlíð var gert 1993 af Arnóri Snorrasyni skógfræðingi. Svæðið er nær fullplantað. Áburðargjöf á trjáplöntur og önnur umhirða. Félagið útbjó áningarstað á Sandaflöt 1995 samkvæmt tillögu Þráins Haukssonar landlagsarkitekts með grilli og nokkrum útiborðum. Góð aðstaða er á flötinni, leiktæki hlaupaköttur, rólur og sandkassi. Félagið lagði veg inn á svæðið og stórt bílaplan. Útivistarstígar eru frá bílastæði í vestur að mörkum svæðisins í átt að Vífilsstaðavatni og austur að mörkum Kópavogs. Sandahlíð býður uppá útivist til leikja og í næði frá umferð. Fuglalíf þar fjölbreytt.

 

 

dsc06795

 

 

 

 

Smalaholt

Með Fréttir

038

Smalaholt

Um 53 ha að stærð úr landi Vífilsstaða. Smalaholt er fyrsta svæði sem fékkst til skógræktar í Garðabæ og var forsenda þess að skógræktarfélag var stofnað árið 1988. Staðsetning vestan og sunnan í Smalaholti, norðan við Vífilsstaðavatn. Skógræktarsvæðið blasir við frá byggðinni í austur. Svæðið er fullplantað, en íbætur hafa verið þar stundaðar undanfarin ár. Þar hafa félagasamtök og grunnskólar í Garðabæ ræktunarreiti um 1 ha að stærð hver. Félagasamtök hafa reist merkingar við reiti sína og sumir útiborð til áningar. Umhirða: áburðargjöf og hefting útbreiðslu lúpínu sem breiðst hefur um hlíðar holtsins. Félagið hefur lagt þjónustuvegi um svæðið og bílastæði sem mikið er notað af útivistarfólki. Við aðkomuna er grænt landgræðsluskógaskilti og fræðsluskilti um gróður og fugla svæðisins. Um svæðið liggja reiðstígar frá Kjóavöllum og ofan GKG að Hnoðraholti. Einnig liggur um Smalaholt háspennulína, Hnoðraholtslína, með spennivirki og tilheyrandi stauravirkjum.

Í tilefni tuttugu ára afmælis félagsins 2008 voru skipulagðir útivistarstígar og áningarstaðir af Hornsteinum ehf. Uppbygging útivistarstíga á svæðinu hófst sumarið 2009, er félagið tók þátt í samstarfi um Atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og Garðabæjar um verkefni á skógræktarsvæðunum. Fyrsti áfangi var lagður eftir brún holtsins en þaðan er gott útsýni.

Fundist hefur lágmynd af stúlku meitluð í klöpp uppi á Smalaholti, utan umsjónarsvæðis skógræktarfélagsins, inni á eignarlandi áður Póst og síma. Nýbyggð í Kópavogi liggur mjög nærri lágmyndinni. Kópavogsbær hefur sneitt úr norðanverðu skógræktarsvæðinu með veglagningu í íbúðarbyggð norðan í Smalaholti, svo íbúðarbyggð umliggur Smalaholtið á tvo vegu.

 

 

 

 

 

Smalaholt_stgurinn_opnaur_

                                                                        Stígurinn opnaður


Kort af Smalaholti

Kort af útivistarsvæðinu á Smalaholti hefur verið sett upp við aðkomuna að svæðinu. Á kortinu má sjá alla göngu- og reiðstíga á Smalaholti, áningarstaði, bílastæði og aðrar upplýsingar sem geta nýst fólki sem á leið um holtið. Loftmyndir ehf unnu kortið fyrir Skógræktarfélag Garðabæjar.

Pdf-skjal af kortinu má nálgast hér. Hægt er að stækka kortið til að skoða það nánar.

 
Ágrip af sögu félagsins

Með Fréttir

Ágrip af sögu Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað 24. okt. 1988, af um 50 áhugasömum Garðbæingum um ræktun og útivist. Félagið er eitt aðildarfélaga í Skógræktarfélagi Íslands. Ólafur Vilhjálmsson, frá Bólstað, þáverandi formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir garðyrkjustjóri unnu að því að útvega landsvæði fyrir skógrækt í Garðabæ, en það var forsenda fyrir stofnun félagsins. Árið 1980 á ári „trésins“ hafði Jón Gauti Jónsson, þáverandi bæjarstjóri óskað eftir því að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar útvíkkaði starfsemina og næði til „og Garðabæjar“. Það fyrirkomulag var allt þar til Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað, með tilkomu Smalaholts fyrsta svæðis félagsins, fengið úr landi Vífilsstaða. Ólafur Vilhjálmsson taldi að áhugi Garðbæinga yrði ekki vakinn, né þátttaka í skógrækt, fyrr en svæði í bæjarlandinu kæmi til.

Þrátt fyrir að Skógræktarfélag Garðabæjar sé ungt að árum, hefur félagsstarf þess verið öflugt, enda félag fyrir alla fjölskylduna, með yfir þrjú hundruð félaga.

Félagið var í fararbroddi er átak um Landgræðsluskóga hófst í Smalaholti 10. maí 1990 með þátttöku frú Vígdísar Finnbogadóttur forseta, þingmanna, bæjarfulltrúa og fjölda fólks. Átakið var svo öflugt þetta sumar að um 70 þúsund trjáplöntur voru gróðursettar eða um 10 plöntur á hvern Garðabæing þá. Árin áður var búið að úthluta flestum frjálsum félagasamtökum, grunnskólunum og nokkrum fjölskyldum ræktunarreitum í Smalaholti. Landgræðsluskógaverkefnið stendur enn. Það byggist á, að skógræktarfélögunum í landinu er úthlutað trjáplöntum á svæðin sem eru úttekin af skógfræðingum S.Í. og gerðir eru þríhliða samningar um svæðin milli skógræktarfélagsins, bæjarfélagsins og S.Í. Skógræktarfélag Íslands, Skógrækt ríkisins og Landgræðslan hafa umsjón með verkefninu sem er styrkt af ríkissjóði.

Skógræktarfélagið hefur stutt bæjaryfirvöld í Garðabæ við öflun verkefna þegar skipuleggja hefur þurft verkefni fyrir ungmenni í sumarvinnu, svokallað atvinnuátak. Fyrir unga Garðbæinga hefur verið útveguð sumarstörf við landgræðslu, skógrækt og stígagerð á undanförnum árum. Það samstarf er beggja hagur.

Félagsstarf er öflugt, einn til tveir fundir að vetri með fræðslu um skógrækt, útivist og ferðalög. Haustferð félagsins, sem hefur verið helgardagsferð, er mjög vinsæl þar sem skoðaður er árangur ræktunar hjá öðrum.

Sjálfboðastarfi hefur verið haldið í gangi frá stofnun félagsins, með vinnu- og samverukvöldum á svæðunum á þriðjudagskvöldum í maí og júní. Einnig hefur einstaklingur unnið í mörg sumur við umhirðu á svæðunum. Félagið hefur síðustu ár einnig selt jólatré í litlu mæli úr ræktun sinni, sem er liður í félagsstarfi í desember. Með árunum hefur umsjónarsvæðunum fjölgað og umhirðan við áburðargjöf og annað orðin það viðamikil að nauðsyn er á að félagið ráði starfsfólk.

Umsjónarsvæði félagsins eru nú á Smalaholti, Hnoðraholti, Sandahlíð, Hádegisholti, Tjarnholtum, Leirdal og í Brynjudal.

Á tuttugu ára afmæli félagsins haustið 2008 var haldið málþing um skógrækt og útivist. Erindi um skógrækt, útivist, fugla og fornminjar voru flutt og kynnt var útivistarskipulag fyrir Smalaholt. Á sama tíma undirritaði Gunnar Einarsson bæjarstjóri fyrsta samstarfsamning Garðabæjar við skógræktarfélagið. Samningurinn gerir félaginu mögulegt að ráða umsjónarmann á svæðin yfir sumarmánuðina.

Skógræktarfélag Garðabæjar er unnið af Hornsteinum ehf. og gerir ráð fyrir göngustígum og áningarstöðum sem unnið verður að á næstu árum. Fyrsti áfangi útivistarstíga var lagður af atvinnuátaki sumarið 2009, svokallaður brúnastígur enda víðsýnt af efri brúnum Smalaholts.