Skip to main content
All Posts By

a8

Lundamói

Með Fréttir

Gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur

Komið verður saman í Lundamóa í tilefni þess að 35 ári eru liðin frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands.

Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabær standa saman að gróðursetningu að hætti Vigdísar sem er að gróðursetja þrjár trjáplöntur, eina fyrir stúlkur, eina fyrir pilta og þá þriðju fyrir ófædd börn.

Athöfnin verður laugardaginn 27. júní um allt land sem samstarfsverkefni skógræktarfélaga og sveitarfélaga og hefst hjá okkur í Lundamóa kl. 13:00.

Lundamói er opið svæði austan við Lundahverfi sem hallar að Reykjanesbraut, sem nú er umgirt grænni jarðvegsmön. Margar leiðir liggja að Lundamóa, þar um liggur ein aðalsamgönguleið göngu- og hjólastíga gegnum bæinn, frá Hafnarfirði norður í Kópavog. Svæðið er núna skógi vaxið og tilvalinn útivistarstaður í bæjarlandinu. Umhverfishópar í sumarstörfum hjá bænum hafa verið að leggja stíga út kurli um svæðið til að lokka fólk af aðalstígnum inn á svæðið sem opnast með útsýni til Vífilsstaða.

Lundamói á töluverða sögu, fyrstu gróðursetningar í móann voru á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Garðabæjar þegar Ólafur Vilhjálmsson á Bólstað, formaður félagsins, gróðursetti í móann á tímabilinu 1984 til 1988. Trjátegundir sem gróðursettar voru þá voru helst birki, stafafurur, sitkagreni og viðjur, þessi tré mynda skógarlund í miðjum Lundamóa. Haustið 1988 var Skógræktarfélag Garðabæjar stofnað eftir að Ólafur og Erla Bil garðyrkjustjóri fengu Smalaholt í landi Vífilsstaða til skógræktar.

Lundamóinn var í sviðsljósinu 26.07.1992 er fjölmennt norrænt vinabæjamót var haldið í Garðabæ. Þá gróðursettu gestir mótsins með frú Vigdísi forseta í fararbroddi plöntur í Vinabæjarlundinn. Áhugi gestanna beindist auðvitað að frú Vigdísi gróðursetja trjáplöntu í reitinn með myndavélar á lofti. Aftur heimsóttu norrænir gesti Vinabæjarlundinn sumarið 2012.

Skjólbeltið sem skermar af móann frá endilangri byggð Lundahverfis var gróðursett í þeim tilgangi að hefta snjó að lóðum og húsum. Því það hafði komið fyrir á snjóþungum vetrum að þakkantar húsa við Efstalund og Hörpulund sliguðust undan snjóþyngslum. Skjólbeltið mætti fara að grisja og opna því það hefur gengt sínu hlutverki.

Rauðgrenitrjám var komið fyrir innan við skjólbeltið eftir að garðyrkjustjóri hafði komið þeim til af fræi úr grenikönglum sem héngu á jólatrénu frá vinabænum Asker í Noregi, fyrir um tveim áratugum síðan.

Lundamói varð fyrir valinu í júní 2001 þegar Skógræktarfélagið gaf Garðabæ 25 birkitré af emblu kvæmi í tilefni 25 ára afmælis kaupstaðaréttinda Garðabæjar. Þá tók Ásdís Halla Bragadóttir þáverandi bæjarstjóri við trjánum og gróðursetti í móann ásamt skógræktarfélögum.

Nú geta íbúar notið Lundamóa sem skjólgóðs og gróðursæls svæðis.

Fjölmennum í Lundamóa laugardaginn 27. júní 2015 kl. 13:00

Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar

 

 

 

 

Vinnukvöld hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar 2015

Með Fréttir

Vinnukvöld hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar í maí og júní 2015

 

26. maí (þriðjudagur) – Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

 

9. júní (þriðjudagur) – Brynjudalur – Mæting í aðstöðunni kl. 18:00 eða í Brynjudal kl. 19:00

 

 

16. júní (þriðjudagur) – Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

 

 

23. júní (þriðjudagur) – Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

 

 

Aðstaða Skógræktarfélags Garðabæjar er austan við Vífilsstaðaspítala, þar sem Ellliðavatnsvegur og Vífilsstaðavegur mætast.

 

 

smalaholt furur nordur reit nov 2007

Vel heppnaður aðalfundur

Með Fréttir

Vel heppnaður aðalfundur


Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar var haldinn þann 23. mars í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.

Skógræktarfélagið er öflugt, virkt og líklega fjölmennast af frjálsum félögum í Garðabæ. Afkoma félagsins var góð á síðasta starfsári, jólatrjáasala gekk vel með fjöldi fólks lagði leið sína í skóginn.


Breytingar urðu á stjórn er Arndís S. Árnadóttir gaf ekki lengur kost á sér, en hún hefur verið ritari félagsins í fjölda ára. Arndís er ekkert að yfirgefa Skógræktarfélagið þó hún víki úr stjórn til að hleypa að yngra fólki eins og hún sagði á aðalfundinum. Henni eru þökkuð vönduð vinnubrögð fyrir hönd félagsins. Eftirmaður Arndísar í stól ritara verður Hildigunnur Halldórsdóttir og tekur hún formlega við á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Nýliðar í stjórn eru Einar Örn Jónsson og Huginn Freyr Þorsteinsson sem eru boðnir velkomnir til stjórnarstarfa.

 

Að loknum aðalfundarstörfum og kaffihléi flutti Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, erindi með myndum um Trjásafnið í Meltungu í Kópavogi. Þessi trjálundur er falin vin á höfuðborgarsvæðinu þar sem finna má margar sjaldséðar trjá- og runnategundir.


Arndís Árnadóttir, fráfarandi ritari Skógræktarfélags Garðabæjar.


Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2015

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2015

Boðað er til aðalfundar Skógræktarfélags Garðabæjar mánudaginn 23. mars nk. í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund og hefst hann kl. 20:00

Dagskrá:

  •  Venjuleg aðalfundarstörf
  • Kaffihlé
  • Fræðsluerindi flytur Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar um Meltungu – trjásafn í Kópavogi.

Trjásafnið í Meltungu er innst í Fossvogsdal á mörkum Kópavogs og Reykjavíkur er fallegur garður sem alltof fáir vita af.

Allir velkomnir

Stjórnin

 

Ábendingar vegna aðalskipulags

Með Fréttir

Ábendingar vegna endurskoðunar aðalskipulags

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar hefur komið á framfæri ábendingum vegna endurskoðunar aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030. Stjórn félagsins fagnar því að vinna við endurskoðun skipulagsins sé hafin og vill fá að taka þátt í þeirri vinnu frá upphafi. Markmið félagsins er að byggja upp góða útivistaraðstöðu á umsjónarsvæðum félagsins til að íbúar bæjarins og aðrir geti notið þar útivistar og náttúruskoðunar.

 

Ábendingar stjórnar Skógræktarfélags Garðabæjar vegna endurskoðunar aðalskipulags bæjarins má sjá í pdf-skjali hér að neðan.

Útivist og gönguleiðir

Með Fréttir

Útivist og gönguleiðir í útmörk Garðabæjar

Árið 2013 hannaði Árni Tryggvason kort yfir gönguleiðir í útmörk Garðabæjar og útivistarsvæði í umsjá Skógræktarfélags Garðabæjar ásamt fjölbreyttum upplýsingum um svæðin. Kortinu hefur meðal annars verið dreift í Smalaholti og Sandahlíð. Hér að neðan má nálgast pdf-skjöl af kortinu góða.

 

Haustferð 2014

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar 2014

Árleg haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var að þessu sinni farin laugardaginn 13. september um Árnessýslu. Ferðin hófst að Foss í Grímsnesi þar sem skoðuð var ræktun Gunnlaugs og Guðrúnar Claessen til áratuga í landi sem er víða erfitt til ræktunar en með natni og elju tókst þeim að koma upp fjölbreyttum og skemmtilegum gróðri í fallegu umhverfi. Þaðan lá leiðin í Friðheima í Reykholti þar sem hópurinn fékk fræðslu m.a. um lífræna ræktun á tómötum og gúrkum þar sem innfluttar flugur eru notaðar til að halda vondu pöddunum í skefjum í stað eiturnotkunar og aðrar til að frjóvga plönturnar. Að því loknu snæddi hópurinn gómsæta tómatsúpu með nýbökuðu brauði í fallegu umhverfi í nábýli við tómatplönturnar. Eftir hádegi lá leiðin til Þóris Sigursteinssonar og Birnu konu hans til að skoða ræktun þeirra í landi Böðmóðsstaða í Laugardalnum. Þar fengum við leiðsögn Þóris um landið þar sem ræktaðar hafa verið um 150 trjátegundir og runnar. Að lokum heimsóttum við Jón Böðvarsson og Arndísi Árnadóttur í Órunes í landi Suðurkots við bakka Hvítár. Þar hafa þau ræktað í yfir tuttugu ár fjölbreytilegan trjágróður í fallegu umhverfi sem hefur vaxið ótrúlega vel, þrátt fyrir erfið skilyrði í upphafi.


Með hverri hausferð bætist okkur skógræktarfólki fróðleikur um ræktun við misjafnar aðstæður en að þessu sinni mættu 30 félagar úr Skógræktarfélaginu í haustferðina og var hún ákafleg ánægjuleg og fróðleg sem endra nær.


Á þessari slóð má sjá fleiri myndir úr ferðinni.

Starfsskýrsla 2013 – 2014

Með Fréttir

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Garðabæjar 2013 – 2014 er komin út og er hægt að nálgast hana hér.

Í skýrslunni er yfirlit yfir helstu verkefni skógræktarfélagsins á þessu tímabili auk þess sem þar má sjá starfsáætlun og fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2014 – 2015.