Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Haustferð

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Árleg haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var að þessu sinni farin laugardaginn 7. september um Reykjavík og nágrenni.

 

Ferðin hófst í Lambhaga þar sem skoðuð var öflug og áhugaverð salat- og spínatræktun undir leiðsögn eiganda fyrirtækisins, Hafbergs Þórissonar. Þaðan lá leiðin í Kálfamóa á Keldum þar sem Jóhann Pálsson, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, sýndi okkur fjölbreytta trjáræktun sem hann hefur unnið að í yfir 60 ár.

 

Næst lá leiðin upp í Mosfellsbæ þar sem við fengum leiðsögn um ræktun Maríu og Erichs Köppel um landspildu sem þau fengu úthlutaða hjá Skógræktarfélgi Mosfellsbæjar í Hamrahlíðinni. Þar er fjölbreyttur gróður í snyrtilegu umhverfi sem þau hjón hafa unnið að undanfarin 15 ár. Um hádegisbil var haldið upp að Hafravatni þar sem skoðað var landsvæði Vilhjálms Lúðvíkssonar og fjölskyldu, ræktun sem hófst fyrir hálfri öld. Þar er farið að rækta ávaxtatré og rósir í skjóli trjánna með ótrúlegum árangri.

 

Að lokum heimsóttum við Jón Þorgeirsson og Guðrúnu Bóasdóttur í Seljadal sem liggur út frá Nesjavallaleið. Svæðið liggur í um 160 metra hæð þar sem allra veðra er von, en árangur af ræktun þeirra hjóna er ótrúlegur í ljósi þess að þau hófu hana aðeins fyrir fjórtán árum (1999). Þarna mátti finna hvert yndisskógatréð eftir annað, eins og við skógræktarfólk köllum þau tré og trjáplöntur sem þurfa skjól. Þarna voru eikur, gullregn, ýmsir eðalþinir og margt fleira sem dafnar með miklum ágætum í hrjóstrugu landinu. Galdurinn virðist vera að búa til stórar holur og þurfti yfirleitt járnkarl til að grafa og fylla síðan með hálfum hjólbörum af skít.

 

Í haustferðina mættu 32 félagar úr Skógræktarfélaginu og var hún ákafleg ánægjuleg og fróðleg sem endra nær.

 

Með haust kveðju

Haustferð 2013

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar laugardaginn 7. september 2013

 

Að þessu sinni verður farið um Stór-Reykjavíkursvæðið og nokkrir fjölbreyttir ræktunarstaðir skoðaðir, allt frá fjöldaframleiðslu á salati til ávaxtaræktunar í reitum einstaklinga. Nánari dagskrá kynnt síðar.

Haustferðin er fyrir félagsmenn Skógræktarfélags Garðabæjar og um er að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til.

 

Takið daginn frá og skráið ykkur í ferðina til formanns á netfangið bil@internet.is eða í síma 8208588. Mæting við Tónlistarskólann við Kirkjulund kl. 9:00.

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013 í Garðabæ

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt landsfund Skógræktarfélaga á landsvísu í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli daganna 23.-25. ágúst sl. Aðildarfélög innan Skógræktarfélags Íslands eru 60, dreifð um allt land. Um 170 fulltrúar og gestir sóttu fundinn í Garðabæ.

Dagskrá fundadagana var fjölbreytt alla dagana. Flutt voru ávörp í upphafi fundar þar sem m.a. Gunnar Einarsson bæjarstjóri flutti ávarp. Mörg fræðsluerindi voru á dagskrá m.a. um eldvarnir á skógræktarsvæðum, hugmyndir að skipulagi Úlfljótsvatns, jarðar í eigu Skógræktarfélags Íslands, um Græna trefilinn og skipulag skógræktar ofan höfuðborgarsvæðisins, um útivist og skógrækt við endurskoðun svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Sýnd var heimildarmynd um upphaf landgræðsluskóga á Íslandi sem hófst á Smalaholti í Garðabæ 10. maí 1990 þegar frú Vígdís Finnbogadóttir forseti gróðursetti fyrstu plöntuna að viðstöddu fjölmenni. Gísli Gestsson kvikmyndargerðarmaður vann myndina en í henni er m.a. viðtal við frú Vigdísi sem tekið var nýlega í skóginum í Smalaholti. Fundarstjórar voru Sigurður Þórðarson frá Sk.Garðabæjar og Valgerður Auðunsdóttir frá Sk. Árnesinga.

Báða dagana var farið í skoðunarferðir, föstudeginum var farið í skoðunarferð um Garðabæ þar sem gestum var boðið í hús Náttúrufræðistofnunar Íslands á Urriðaholti, í Grænagarð á Garðaholti þar sem Hólmfríður dóttir Sigurðar Þorkelssonar tók á móti skógræktarfólki og sagði frá ræktunarsögu fjölskyldunnar en harmonikuleikur Sigríðar Ólafsdóttur ómaði um skóginn. Endað var í Vífilsstaðahlíð þar sem tekið var á móti gestum með veitingum í boði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Við það tækifæri undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Þröstur Ólafsson formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur samstarfsamning milli Garðabæjar og félagsins um rekstur á Garðabæjarhluta Heiðmerkur.

Eftir hádegi á laugardeginum var gengið um skógræktarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar. Byrjað í Smalaholti þar sem ungur trjásýnireitur með merktum trjám og runnum var skoðaður. Við Furulund, áningarstað í Smalaholti gróðursetti frú Vigdís Finnbogadóttir 20 miljónustu landgræðsluskógarplöntuna, ask sem táknræna athöfn yfir landsverkefnið er hófst 1990 eins og áður kom fram. Því næst var gestum boðið í göngu um skóginn sem lauk í Sandahlíð með veitingum, lúðrablæstri og söng. Margir fulltrúar og aðrir gestir þáðu boð um leiðsögn um Hönnunarsafn Íslands á föstudag og í lok fundar á sunnudag. Hápunktur aðalfundarins var hátíðarkvöldverður þ.e. árshátíð skógræktarfélaganna. Þar mættu góðir gestir s.s. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Júlía Ingvarsdóttir formaður umhverfisnefndar ásamt mökum. Ráðherra flutti ávarp til skógræktarfólks. Anna María Björnsdóttir söng einsöng, einnig var gestum skemmt þar sem leikið var á sög við undirleik á píanó. Veislustjóri var Guðni Ágústsson sem skemmti fólki með óviðjafnanlegu gamanmáli.

Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands veitti viðurkenningar í þágu skógræktar þeim Barböru Stanzeit gjaldkera Skógræktarfélags Garðabæjar til áratuga, Erlu Bil Bjarnardóttur formanni félagsins s.l. 25 ár, Sigurði Björnssyni fyrrum ritara félagsins og Sigurði Þorkelssyni í Grænagarði.

Stjórn Skógræktarfélags Íslands var endurkjörin í lok fundarins. Formaður þakkaði Garðbæingum fyrir góðan undirbúning fundarins þar sem allt gekk snurðulaust.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar og fleiri sem unnu að undirbúningi og framkvæmd landsfundarins eiga heiður skilið fyrir góðan undirbúning og framkvæmd. Bestu þakkir til IKEA og Ölgerðarinnar sem styrktu félagið með vöruúttekt og láni á vörum.

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt aðalfund Skógræktarfélags Íslands 2013 í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá stofnun félagsins.

Haustferð

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar laugardaginn 7. september 2013

 

 

Haustferðin er fyrir félagsmenn og er um að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til. Að þessu sinni skoðum við fjölbreytta ræktun á Stór Reykjavíkursvæðinu allt frá salati að perum.

 

 

Takið daginn frá og skráið ykkur í ferðina til formanns á netfangið bil@internet.is eða síma 8208588.

Mæting við Tónlistaskólann við Kirkjulund kl.9:00

 

 

Stjórnin

Gönguleiðarkort

Með Fréttir

Gönguleiðakort um skógræktarsvæðin í Garðabæ

 

Nýlega gaf Skógræktarfélag Garðabæjar út kort í handhægu vasabroti með upplýsingum um gönguleiðir og annan fróðleik um útivistarsvæðin ofan byggðar í Garðabæ.

Í nágrenni við friðland Vífilsstaðavatns, á hæðunum í Smalaholti og Sandahlíð, sjást nú myndarlegir skógarlundir sem skógræktarfélagið hefur ræktað og byggt upp á undanförnum 25 árum. Margir nýta sér svæðin til útivistar og afþreyingar. Félagið hefur látið skipuleggja göngustíga og áningastaði á þessum svæðum og hlykkjast stígakerfið þar um alveg efst upp á hæðir þaðan sem víðsýnt er. Stígagerðin hófst sumarið 2009 þegar félagið tók þátt í samstarfi um atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og Garðabæjar um verkefni á skógræktarsvæðunum og margir ungir Garðbæingar tóku þátt í.

 

Kortið nær yfir næsta nágrenni Vífilsstaðavatns en á annarri hlið þess eru sérkort yfir gönguleiðir, áningastaði o.fl. í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð. Sagt er frá skógræktarsvæðum í umsjón Skógræktarfélags Garðabæjar og öðrum áhugaverðum skógarreitum og svæðum í bæjarlandinu. Einnig er sagt frá upphafi skógræktar í Garðabæ sem má rekja til skógardaga á Vífilsstöðum vorið 1911

 

Gönguleiðakortið var unnið af Árna Tryggvasyni skiltahönnuði og ljósmyndara í samráði við stjórn félagsins. Útgáfa kortsins er styrkt af Bæjarsjóði Garðabæjar. Hægt er að nálgast kortið í þjónustuveri Garðabæjar að Garðatorgi 7 og fljótlega verða settir upp kassar við inngang að skógræktarsvæðunum í Sandahlíð og Smalaholti. Skógræktarfélag Garðabæjar er opið öllum áhugasömum um trjá- og skógrækt (www.skoggb.is).

Brynjudalsferð 2013

Með Fréttir

Ágætu skógræktarfélagar;

 

Venjulega höfum við haldið í jólatrjáareit félagsins í Brynjudal fyrsta þriðjudagskvöld í júní. Að þessu sinni höfum við ákveðið að fresta ferðinni til þriðjudagsins 25. júní. Þá verða nauðsynlegar plöntur komnar til að gróðursetja og veðrið væntanlega upp á sitt besta í kringum Jónsmessuna.

 

Eins og áður er mæting  kl. 18:00 frá aðstöðu félagsins austan Vífilsstaða en þar verður sameinað í bíla og ekið upp í Hvalfjörð. Þið getið líka ekið sjálf beint upp í Brynjudal og er áætlað að vera þar um kl. 19:00. Áætluð heimkoma er um kl .22:00.

 

Þetta kvöld munum við bæði gróðursetja og gefa eldri plöntum áburð en jafnframt njóta góðs félagsskapar. Alltaf er gott að taka með sér skjólgóðan fatnað og nesti.

 

Við viljum jafnframt minna á að önnur þriðjudagskvöld í júní munum við hittast við aðstöðu félagsins kl. 20:00 og fara þaðan út á svæðin til gróðursetningar eða umhirðu.

 

Fylgist með á heimasíðu okkar: www.skoggb.is ef breytingar skyldu verða.

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Samið um umhirðu á skógræktarsvæðum

Með Fréttir

Samið um umhirðu á skógræktarsvæðum

22.03.2013

 

Samstarfssamningur Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar um samvinnu um ræktun og umhirðu á skógræktarsvæðum bæjarins var undirritaður á aðalfundi Skógræktarfélagsins 19. mars sl.

Í samningnum er kveðið á um að Skógræktarfélagið taki að sér tillögugerð um skipulag, hafi umsjón með og sjái um framkvæmdir við þau skógræktar- og útivistarsvæði sem eru skilgreind sem skógræktarsvæði í aðalskipulagi og eru utan Heiðmerkur. Svæðin eru: Smalaholt, Sandahlíð, Hnoðraholt, Tjarnholt, Hádegisholt og Leirdalur. Samtals eru þau 297 ha að stærð.

Verkefnaáætlanir til þriggja ára

Félagið skal gera rammaáætlanir til þriggja ára í samvinnu við umhverfis- og tæknisvið Garðabæjar um umsjón og umhirðu með svæðunum. Fram kemur að verkefnaáætlanir um gróðursetningar og aðrar framkvæmdir skuli unnar í samráði við umhverfisstjóra og lagðar fyrir umhverfisnefnd til umjföllunar.

Félagið ber einnig verkefnalega ábyrgð vegna atvinnuátakshópa og vegna vinnuhópa á vegum Vinnuskóla Garðabæjar sem vinna við afmörkuð verkefni samkvæmt framkvæmdaáætlun. Þá ber félaginu að kynna málefni sín og starfsemi með markvissri fræðslu.

Fær árlegan starfsstyrk

Garðabær veitir félaginu árlegan starfsstyrk samkvæmt samningnum. Á árunum 2013 og 2014 skal styrkurinn vera 2,5 milljónir með fyrirvara um samþykkt í fjárhagsáætlun

Samninginn undirrituðu þau Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélagsins. Um var að ræða endurnýjun samstarfssamnings sem gerður var fyrst árið 2008 í tilefni af 20 ára afmælis félagsins. Í ár er 25 ára afmæli Skógræktarfélags Garðabæjar.

Aðalfundur

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2013 verður haldinn

þriðjudaginn 19. mars n.k. kl. 20:00

í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

 

D A G S K R Á:

 

  • Undirritun samstarfssamnings Garðabæjar og skógræktarfélagsins, Gunnar Einarsson bæjarstjóri.
  • Myndasýning frá liðnu starfsári félagsins
  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Önnur mál
  • Kaffiveitingar í boði félagsins
  • Fræðsluerindi Kristins Þorsteinssonar garðyrkjufræðings um trjágróðurinn í garðinum.

Trjágróður skapar umgjörð sem hefur gífurleg áhrif á umhverfi okkar.
Við val og ræktun trjágróðurs í garða þarf að hafa margt í huga. Kristinn fjallar einnig um notkun trjáa og runna í nánasta umhverfi okkar.

 

Allir velkomnir – Takið með ykkur gesti

 

Stjórnin

Jólaskógur 2012

Með Fréttir

Jólaskógur í Smalaholti

                       

Jólastemning ríkti sannarlega í Smalaholti laugardaginn 15. desember þegar margar fjölskyldur komu í skóginn og söguðu sér jólatré. Jólaskógur í umsjá Skógræktarfélags Garðabæjar var haldinn þriðja árið í röð í Smalaholti og voru að þessu sinni grisjuð tré í reit sem Lionskúbburinn í Garðabæ hefur umsjón með. Félagskonur úr Lionsklúbbnum Eik buðu upp kakóveitingar í fururjóðri við samkomusvæði sem var útbúið og tekið í notkun í sumar.

Jólaskógur 2012

Með Fréttir

Jólaskógur 2012

 

Smalaholti við Vífilsstaðavatn

 

 

Opið laugardaginn 15. desember kl. 12-16

 

Fjölskyldan sagar eigið jólatré. Eitt verð kr. 5000

 

Boðið upp á kakó og piparkökur

 

Skógræktarfélag Garðabæjar

 

í samstarfi við Lionsklúbbinn Eik og Lionsklúbb Garðabæjar